Mikill hiti er í fundarmönnum á formannafundi ASÍ sem enn stendur yfir en hann hófst kl. 13. Skv. upplýsingum af fundinum, sem er lokaður fréttamönnum, hefur komið fram alvarleg og hörð gagnrýni á ríkisstjórnina við umræðurnar vegna vanefnda á loforðum, sem ríkisstjórnin gaf við gerð kjarasamninganna.
Um 60 formenn aðildarfélaga og deilda landssambanda í ASÍ sitja fundinn en strax að honum loknum mun samninganefnd ASÍ funda og fara yfir þær niðurstöður sem liggja fyrir hjá einstökum félögum og fram koma á formannafundinum.
Í framhaldi af því munu samninganefndir ASÍ og Samtaka atvinnulífsins leggja mat á forsendur kjarasamninganna í svonefndri forsendunefnd og ákveða hvort ástæða sé til að segja samningunum upp en endurskoðun þeirra á að vera lokið fyrir kl. 16 á morgun.
Verði niðurstaðan sú að forsendur hafi staðist heldur kjarasamningurinn gildi sínu fram að næstu endurskoðun í janúar 2013 og launþegar á almenna vinnumarkaðinum fá 3,5% launahækkun um næstu mánaðamót.