Norðurál hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem því er fagnað, að niðurstaða sé fengin í mál sem varðar tryggingabætur til Þórarins Björns Steinssonar, fyrrverandi starfsmanns Norðuráls.
Málið snerist um túlkun á bótaskyldu samkvæmt íslenskum lögum. Í yfirlýsingu Norðuráls segir að fyrirtækið kaupi tryggingar af Sjóvá og því hafi forræði og rekstur málsins verið í höndum tryggingafélagsins.
„Norðurál er sátt við niðurstöðu Hæstaréttar enda eyðir hún óvissu um viðbrögð starfsfólks við hugsanlegum slysum og rétt þess til trygginga samkvæmt skilmálum Sjóvár. Í fréttaflutningi um málið hefur ranglega verið sagt að Norðurál hafi tekið afstöðu gegn starfsmanninum eða neitað honum um aðstoð. Það er ekki rétt. Allar ákvarðanir um greiðslur og rekstur málsins voru teknar af Sjóvá," segir í yfirlýsingunni.
„Norðurál óskar Þórarni Birni alls hins besta í framtíðinni."
Hæstiréttur viðurkenndi í dag bótaskyldu Norðuráls vegna meiðsla, sem Þórarinn Björn varð fyrir við að hjálpa samstarfskonu sinni árið 2005. Hæstiréttur sneri við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem taldi fyrirtækið ekki bótaskylt.