„Misskildasta ríkisstjórn sögunnar“

Ríkisstjórnin
Ríkisstjórnin Ómar Óskarsson

„Við erum orðin vön þeirri umræðu að ríkisstjórnin sé einhver misskildasta ríkisstjórn sögunnar. Hún er alltaf að gera allt fyrir alla og þegar menn sjá það ekki þá er það allt saman misskilningur,“ sagði Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, í umræðu um atvinnulífið og atvinnuleysi á Alþingi í morgun. Forsætisráðherra sagði ríkisstjórnina á réttri leið.

Umræðan hófst á fyrirspurn Birkis Jóns Jónssonar, þingmanns Framsóknarflokks. Hann vísaði í tölur frá Hagstofu Íslands en í þeim kemur fram að á undanförnum tólf mánuðum hafi störfum á vinnumarkaði fækkað um 3.100 og atvinnuþátttaka aldrei mælst minni en á síðasta ársfjórðungi ársins 2011. Hann spurði Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra hvort þessar tölur bæru þess merki að ríkisstjórnin hefði yfirleitt atvinnustefnu.

„Ég held að það sé alveg ljóst öllum nema stjórnarandstöðunni að hún er á réttri leið,“ sagði Jóhanna og sagði helstu skýringu á tölum Hagstofunnar þá, að ríkisstjórnin hefði kappkostað að færa fólk af atvinnuleysisbótum og í nám. Um tvö þúsund manns hefðu farið í skóla vegna þeirra úrræða sem ríkisstjórnin hefði gripið til. Jóhanna viðurkenndi að betur þyrfti að gera en áréttaði að ríkisstjórnin hefði margt gott gert, atvinnulífið þyrfti þó að koma inn af fullum krafti einnig.

Þegar Birkir Jón sagði það ekki atvinnustefnu að stýra öllum í nám, og varla væri árangur þegar fólk gæti ekki staðið undir stökkbreyttum lánum sínum þar sem það hefði ekki atvinnu, minnti Jóhanna á, að þetta hefði einmitt verið ein af stóru aðgerðunum sem Finnar réðust í þegar þeir lentu í niðursveiflu. Hún sagði að þetta myndi eflaust standa upp úr, þegar horft væri til baka, sem ein stóra aðgerðin sem gripið var til hér á landi einnig.

Horfa þarf bjartsýnum augum til framtíðar

Næsta fyrirspurn kom frá Birgi Ármannssyni og hélt hann áfram á sömu braut. Hann hóf mál sitt á því að segja að ítarlegri umræðu um atvinnumálin þyrfti augljóslega að taka. „Þá sýna tölur um fækkun á vinnumarkaði þá mynd að þrátt fyrir að atvinnuleysistölur Vinnumálastofnunar hafi lækkað er ekki um raunverulegan árangur að ræða, heldur breyttar forsendur.“ Hann sagði að verið væri að reikna úr minna mengi og því  um að ræða hagtölulega minnkun atvinnuleysis, sem væri ekki raunverulegur árangur.

Birgir sagði vissulega ánægjulegt þegar fólk ætti þess kost að fara í nám „en það er ekki gott að helsti hvatinn sé dapurt ástand á vinnumarkaði. Best er að fólk eigi valkosti“.

Þá spurði Birgir um stöðu kjaramála. Hann sagðist lesa fréttir af því innan samtaka launþega og vinnuveitanda að forsendur kjarasamninga væru brostnar vegna þess að ríkisstjórnin stæði ekki við sitt. Hann spurði Jóhönnu um skilaboð hennar til aðila vinnumarkaðarins.

„Skilaboðin eru að horfa bjartsýnum augum til framtíðar og vinna með ríkisstjórninni að því að koma hjólum atvinnulífsins í gang,“ sagði Jóhanna og sagði merki um að ýmislegt væri að glæðast á almennum markaði, meðal annars mætti sjá í pípunum fjárfestingar upp á 50-70 milljarða. „Við erum öll af vilja gerð til að leggja okkar af mörkum til að þetta takist en það þarf að vera sanngirni á báða bóga.“

Birgir sagði stjórnarandstöðuna vana því að sjá allt í tómu svartnætti, að misskilja allt, og væri það væntanlega vegna þess að flokkarnir væru í grímulausri stjórnarandstöðu. Þá benti hann á að hvert verkalýðsfélagið á fætur öðru, og stéttarfélagið, tjáði sig með sama hætti og stjórnarandstaðan. Enginn sæi efndir ríkisstjórnarinnar.

Jóhanna sagði það merkilegt að enginn annar skyldi sjá þetta en ríkisstjórnin, enda blasti það við að ríkisstjórnin hefði ráðist í margvíslegar aðgerðir, margar hverjar mjög stórar, til að tryggja stöðugleika á vinnumarkaði. Hún sagði að viðræður stæðu yfir við aðila vinnumarkaðarins með það að markmiði að tryggja að kjarasamningarnir héldu og stöðugleiki ríkti áfram næstu árin.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Birkir Jón Jónsson.
Birkir Jón Jónsson.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert