Hallur Már -
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG, segir fast sótt að sér að breyta afstöðu sinni til frávísunartillögu Bjarna Benediktssonar í landsdómsmálinu. Að hennar mati eru réttarhöldin liður í að hvítþvo stjórnmálastéttina af ábyrgð á hruninu með því láta einn mann taka á sig sökina. Ferlið sé fjarri því uppgjöri sem raunverulega þurfi að fara fram og hún sé tilbúin til að taka þátt í.
Hún segir að ef ákæruliðirnir sem eftir standa séu skoðaðir sé ómögulegt að líta svo á að málshöfðunin gegn Geir geti á nokkurn hátt talist sem uppgjör við hrunið og afleiðingar þess.
„Ég vil sannarlega að fram fari alvöruuppgjör við hrunið þar sem við raunverulega kortleggjum allt það sem fór úrskeiðis, hvernig sú menning varð til sem leiddi þetta af sér. Umfram allt hvernig við ætlum að læra af því og gera breytingar sem verði til að slíkt gerist ekki aftur. Ég vil líka breyta þeirri rótgrónu venju að enginn beri ábyrgð,“ segir Guðfríður Lilja.
Lögin um landsdóm segir Guðfríður Lilja að þurfi að endurskoða: „Eftir þetta hneyksli sem varð í þinginu þar sem þingið lýsti sjálft sig í rauninni vanhæft sem ákæruvald þarf að endurskoða lög um landsdóm. Svo að svona klúður endurtaki sig ekki þarf að fara í gegnum það hvernig fólk er dregið til ábyrgðar. Um það er fjallað bæði í þingmannaskýrslunni og skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, þar á meðal tillögur sem væru til bóta. Það hefur þó ekki náð fram að ganga, við höfum í raun ekkert breyst og það er í rauninni vandamálið.“