Vantrauststillaga fékkst ekki afgreidd

Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson SteinarH

Tillaga Vilhjálms Birgissonar, formanns Verkalýðsfélags Akraness, á formannafundi ASÍ í dag, þar sem krafist er að ríkisstjórnin standi við gefin loforð og að öðrum kosti sjái fundurinn sig knúinn til að lýsa yfir vantrausti á ríkisstjórnina, fékkst ekki afgreidd á fundinum.

„Eftir tveggja tíma umfjöllun um þetta þá neitaði forseti Alþýðusambandsins að taka þessa tillögu til afgreiðslu og sagði að formannafundur ASÍ væri ekki ályktunarhæfur. Ég hef oft orðið vitni að lýðræðislegu ofbeldi en þarna keyrði alveg um þverbak,“ segir Vilhjálmur.

Hann segir að honum hafi þótt vænt um stuðning sem hann hafi fengið frá þónokkuð mörgum fundarmönnum og þar á meðal formanni stærsta stéttarfélagsins VR.

„Ég sagði á fundinum að mér væri algerlega óskiljanlegt af hverju ekki væri hægt að greiða þessari ályktun brautargengi en hún fékk ekki efnislega afgreiðslu sökum þessa,“ segir Vilhjálmur.

„Forystumenn í stéttarfélögum eiga ekki undir nokkrum kringumstæðum að vera eyrnamerktir einhverjum einum ákveðnum stjórnmálaflokki, heldur styðja öll góð málefni. Það er mín afstaða. En í þessu máli finnst mér einfaldlega málið líta þannig út að þarna er flokkspólitísk hollusta látin ráða för. Af hverju var hægt að lýsa vantrausti vegna vanefnda o.fl. í janúar 2009 en ekki núna þegar við höfum margítrekað verið svikin um það sem okkur hefur verið lofað? Ég vildi bara senda ríkisstjórninni skýr skilaboð. Standið við samninga, að öðrum kosti lýsir fundurinn yfir vantrausti,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert