Ætluðu ekki að hlífa stjórnmálamönnum

Tillagan hefur verið rædd á Alþingi í allan dag.
Tillagan hefur verið rædd á Alþingi í allan dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, segir að í upphafi umræðu um uppgjör vegna hruns bankakerfisins hafi verið full samstaða um að stjórnmálastéttin gæti ekki hlíft sjálfri sér í þessu uppgjöri.

Steingrímur sagði þetta í umræðum á Alþingi um hvort draga ætti til baka ákæru á hendur Geir H. Haarde. Steingrímur ræddi aðdraganda málsins og minnti á að það hefði verið full samstaða um það á Alþingi haustið 2008 um að fram færi rannsókn á orsök efnahagshrunsins og fjalla ætti um ábyrgð þeirra sem komu að málum. Það hefðu líka allir gert sér grein fyrir að svo kynni að fara að þingið þyrfti að fjalla um ábyrgð ráðherra í þessu sambandi. Um þessa vinnu hefði verið full samstaða þangað til þingmannanefndin, sem falið var að fjalla um ábyrgð þingsins, tók að ræða spurningu um ábyrgð einstakra ráðherra.

„Það var algerlega ljóst hvað í vændum gæti verið. Menn sammæltust um það að ekki yrði undan því vikist að fara einnig ofan í þennan þátt málsins. Stjórnmálastéttin í landinu gæti ekki hlíft sjálfri sér við rannsókn á sínum störfum og greiningu á sinni ábyrgð.“

Steingrímur sagðist telja tal um pólitískar ofsóknir því eitt af því allra dapurlegasta sem upp hefði komið eftir á í þessu sambandi.

„Mér finnst menn gerast drjúgir við það að setja allt annan blæ á þetta mál heldur en að nokkurt tilefni er til þegar undirbúningur þess og þess sem fyrir lá er haft í huga. Tillagan var afgreidd hér, ekki eins og ég greiddi atkvæði að öllu leyti, en ég var hér með fullri meðvitund. Ég hélt að það ætti almennt við um þingmenn, sem eitthvað hafa sinnt þingstörfum, að þeir vissu hvernig þetta gengi fyrir sig. Við erum að gera þetta nærri upp á hvern einasta dag. Tillaga er borin upp til atkvæða og breytingartillögur við hana og svo er tillagan sjálf borin upp svo breytt. Nú koma menn upp og segja að það hefði átt að biðja um frest; 15-16 mánuðum seinna. Það er ansi seint fram komið. Hefðu menn þá fyrstu dagana eftir atkvæðagreiðsluna gert slíkar athugasemdir þá hefði verið ráð að velta því fyrir sér, eigum við kannski að staldra við áður en við höldum vegferðinni áfram? Það var ekki gert heldur var hér ráðinn saksóknari og honum falið þetta verkefni og menn tóku að sér að setjast í sérstaka ráðgjafanefnd með honum. Bíddu, af hverju tóku menn sæti í þeirri nefnd ef þeir ef þeir höfðu efasemdir um það sem þeir voru að gera? Af hverju kemur það allt í einu upp núna 14 mánuðum síðar?“ spurði Steingrímur.

Atli Gíslason alþingismaður sagði fyrr í dag að gera hefði átt hlé á atkvæðagreiðslunni þegar ljóst var að aðeins einn af fjórum ráðherrum yrði ákærður. Hann á einnig sæti í nefnd sem er saksóknara Alþingis til ráðgjafar í málinu gegn Geir H. Haarde.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert