Fjórir þingmenn hafa lagt fram dagskrártillögu á Alþingi um að vísa frá þingsályktunartillögu Bjarna Benediktssonar um að ákæra á hendur Geir H. Haarde verði felld niður. Þetta eru Magnús Orri Schram, Eygló Harðardóttir, Birgitta Jónsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Í tillögunni segir að Alþingi fari með ákæruvald í málum vegna embættisbrota ráðherra. Ákvörðun þess, sem fari með almennt ákæru- eða saksóknarvald um að fella niður ákæru, verði að byggjast á málefnalegum rökum. Þetta leiði af grunnreglum stjórnsýslunnar. Alþingi sé á sama hátt bundið af sjónarmiðum um málefnalegar forsendur. Niðurfelling ákæru mundi fyrst og fremst eiga við ef í ljós kæmi að við útgáfu ákæru hefði verið byggt á röngum forsendum í grundvallaratriðum eða fram kæmu nýjar upplýsingar sem röskuðu grundvelli máls.
Í tillögunni segir síðan: „Ákæruvaldi Alþingis í málum vegna meintra brota ráðherra í embætti er þannig fyrir komið að eftir að þingið hefur ákveðið að gefa út ákæru er áframhaldandi umsjón saksóknarvaldsins falin saksóknara þingsins. Verði slíkur saksóknari þess áskynja að málshöfðun sé byggð á röngum forsendum í grundvallaratriðum væri honum rétt að beina því til þingsins að fella hana niður af þeim sökum.
Í því máli sem hér um ræðir hefur ekki orðið neinn sá forsendubrestur sem réttlætir að fallið verði frá málinu. Engin slík beiðni hefur borist, hvorki frá saksóknara Alþingis né Landsdómi. Landsdómur hefur hins vegar hafnað með úrskurði kröfu um að vísa málinu frá í heild og standa því eftir fjögur atriði málshöfðunarinnar af sex óhögguð."