Mikil óvissa ríkir um það hvaða örlög þingsályktunartillaga þess efnis að Landsdómsákæran á hendur Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra, verði dregin til baka muni hljóta og þá ekki síst á meðal þingmanna sjálfra. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, mun mæla fyrir þingsályktunartillögunni á Alþingi í dag en samkomulag varð um að hún yrði tekin á dagskrá þingsins að loknu jólaleyfi.
Fyrir liggur að hópur þingmanna hefur rætt um það undanfarna daga að leggja fram svonefnda rökstudda dagskrártillögu um að þingsályktunartillaga Bjarna verði tekin af dagskrá þingsins. Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í gær var haft eftir Birni Vali Gíslasyni, þingflokksformanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að slík tillaga yrði lögð fram í dag og sagðist hann aðspurður gera ráð fyrir því að hún yrði samþykkt. Ólíklegt er hins vegar talið að tillagan verði lögð fram ef sýnt þyki í umræðunum á þingi í dag að hún njóti ekki meirihlutastuðnings.
Málatilbúnaðurinn í kringum dagskrártillöguna, svo ekki sé talað um tillöguna sjálfa, þykir enn frekar til marks um það hversu mikil óvissa og taugatitringur ríkir um málið í herbúðum stjórnarflokkanna.
Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær er búist við að mjög mjótt geti orðið á munum í atkvæðagreiðslum um málið. Ýmislegt getur þar haft áhrif og er þannig til að mynda óvíst hversu margir þingmenn muni sitja hjá eða skrá sig fjarverandi af einhverjum ástæðum á meðan málið verður rætt og greidd um það atkvæði. Til að mynda gæti það orðið raunin í tilfelli einhverra þeirra þingmanna sem sátu í þingmannanefndinni sem lagði til að fjórir ráðherrar yrðu ákærðir fyrir Landsdómi og fram hefur komið að verða kallaðir til sem vitni vegna málarekstursins gegn Geir.
Eins er ljóst að gríðarlegur þrýstingur er á þingmenn stjórnarflokkanna að styðja það að þingsályktunartillaga Bjarna Benediktssonar verði tekin af dagskrá þingsins, en henni hafnað að öðrum kosti takist ekki að koma henni út af dagskránni, og ennfremur að sá þrýstingur hefur færst mjög í aukana undanfarna daga.
Minnir ástandið á ýmis stærri mál sem ríkisstjórnin hefur þurft að kljást við, eins og sjávarútvegsfrumvörpin síðastliðið vor, fjárlög og jafnvel að sumu leyti aðdraganda atkvæðagreiðslunnar um umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið á sínum tíma og Icesave-samningana, að sögn þingmanna sem Morgunblaðið heyrði í.
Hvað einstaka þingmenn varðar og hvernig þeir munu greiða atkvæði hefur töluverður hluti þeirra ekki viljað gefa upp afstöðu sína og þá einkum þingmenn úr röðum framsóknarmanna og Samfylkingarinnar. Ljóst er hins vegar að þingmenn Sjálfstæðisflokksins munu allir greiða atkvæði með því að ákæran gegn Geir verði dregin til baka og gegn því að þingsályktunartillagan þar um verði tekin af dagskrá þingsins. Á hinn bóginn munu þingmenn Hreyfingarinnar og flestir þingmenn vinstri grænna kjósa gegn þingsályktunartillögunni og með því að hún verði tekin af dagskrá. En í ljósi þess hversu mjótt kann að verða á mununum geta atkvæði einstakra þingmanna vegið þungt.
Líkt og þegar greidd voru atkvæði um það hvort ákæra ætti fjóra fyrrverandi ráðherra haustið 2010, og niðurstaðan varð sú að Geir H. Haarde var einn ákærður, er búist við því að þingmenn Samfylkingarinnar kunni að ráða úrslitum um það hvernig málið fer að lokum. Að sama skapi bendir flest til þess að málið sé umdeildast þar á bæ.
„Ég vil sannarlega að fram fari alvöruuppgjör við hrunið þar sem við raunverulega kortleggjum allt það sem fór úrskeiðis, hvernig sú menning varð til sem leiddi þetta af sér,“ sagði Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, í samtali við mbl.is í gær.
Hún sagði að það sem hefði gerst að hennar áliti þegar ákveðið var að ákæra Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra, einan fjögurra fyrrverandi ráðherra haustið 2010 sem lagt var til að yrðu ákærðir vegna bankahrunsins, hefði verið ákveðin skrumskæling á því uppgjöri sem þyrfti að fara fram. Í réttarríki hefði ákæruvald ákveðnum frumskyldum að gegna og þyrfti að taka ábyrgð sína mjög alvarlega. Þar þyrfti meðal annars að gæta jafnræðissjónarmiða, færa fram málefnaleg rök og þar mætti engin flokkspólitík blandast inn í. „Það að leiða einn mann fyrir dóm er skrumskæling og liður í samtryggingu stjórnmálanna sem ætla að hvítþvo hendur sínar af öllu því sem gerðist með því að láta einn mann svara til saka,“ sagði Guðfríður Lilja.
Samþykkt var á Alþingi þann 28. september 2010 að ákæra Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra, fyrir Landsdómi vegna bankahrunsins og aðdraganda þess, en það var í fyrsta sinn sem ráðherra hafði verið ákærður hér á landi með þeim hætti á grundvelli ákvæða stjórnarskrárinnar um ráðherraábyrgð.
Sérstök þingmannanefnd hafði lagt til að þrír aðrir fyrrverandi ráðherrar í ríkisstjórn Geirs yrðu að sama skapi ákærðir, þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem verið hafði utanríkisráðherra, Árni M. Mathiesen, sem var fjármálaráðherra, og Björgvin G. Sigurðsson, sem gegnt hafði embætti viðskiptaráðherra. Niðurstaða Alþingis varð þó sú að ákæra Geir einan.
Greidd voru atkvæði um hvern fyrrverandi ráðherra fyrir sig og í langflestum tilfellum kusu þingmenn með sama hætti óháð því um hvaða einstakling var að ræða hverju sinni. Nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar kusu hins vegar með mismunandi hætti eftir því hvaða fyrrverandi ráðherra átti í hlut og urðu þess þannig valdandi að niðurstaðan varð sú að Geir var einn ákærður en hinir þrír fyrrverandi ráðherrarnir ekki.