Jón Bjarnason, þingmaður VG og fyrrverandi ráðherra, segir á bloggvef sínum, að það veki athygli hve umræðan innan flokksins um tillögu um að afturkalla ákæru Alþingis á hendur Geir H. Haarde sé heiftúðug. Þetta sé hluti af aðför til losa sig við öfluga félaga úr trúnaðarstörfum eða ýta þeim úr flokknum.
„Sumir þingmenn virðast hafa tekið sér einkarétt á orðbragði eins og „sótraftar“ um félaga sína sem gera málefnalega og áreitislaust grein fyrir skoðunum sínum. Kallað er eftir afsögn ráðherra og þingmanna og talað er um svik. Fyrir suma kann þessi málflutningur að vera nauðsynlegur til að draga athyglina frá eigin svikum eins og t.d. í ESB-málunum. Aðrir kunna að vera í vörn fyrir forystumenn Samfylkingarinnar sem sátu í hrunstjórninni og dönsuðu þar með Sjálfstæðisflokknum, en horfa nú gleiðbrosandi á,“ segir Jón og bætir við:
„Fyrir mér er þetta því miður of kunnuglegt orðbragð. Þetta er hluti af aðför til losa sig við öfluga félaga úr trúnaðarstörfum eða ýta þeim úr flokknum. Þessari aðför er beint gegn þeim sem standa í stafni á skútu þeirra hugsjóna sem Vinstrihreyfingin grænt framboð var stofnuð um. Með þessum hætti var aðförin að þingmönnunum Atla Gíslasyni, Ásmundi Einari Daðasyni og Lilju Mósesdóttur. Og nú skal láta sverfa til stáls gagnvart Ögmundi Jónassyni og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur. Er nema von að félögum í VG um allt land blöskri.“