Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Alþingi í dag að hafið væri yfir allan vafa að Alþingi gæti tekið þá ákvörðun að falla frá máli á hendur Geir H. Haarde fyrir landsdómi.
Bjarni sagði, að grundvallarmunur væri á þessu máli og t.d. nímenningamálinu, að í því máli hefði Alþingi ekki farið með ákæruvald, eins og í málinu gegn Geir.
Þá sagði Bjarni, að hann hefði orðið var við að ákveðin sinnaskipti hefðu orðið hjá þingmönnum og þeim þætti, að réttlætinu hefði ekki verið fullnægt þegar Alþingi ákvað að ákæra Geir einan. Orðið hefði ákveðinn forsendubrestur og þingsályktunartillagan byggði m.a. á því.
Bjarni lagði til að málið yrði að lokinni fyrri umræðu sent til saksóknarnefndar þingsins. Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að sú nefnd væri ekki til samkvæmt þingsköpum Alþingis og því væri sú leið óþingleg. Fleiri tóku undir þetta en Bjarni sagði, að það væri ekki málefnalegt innlegg, að mæla gegn því að málið fari til saksóknarnefndar, sem ætti samkvæmt lögum um nefndina að fjalla einmitt um þetta mál.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði að þingsályktunartillaga Bjarna væri mjög illa rökstudd og ekki stæði steinn yfir steini í rökstuðningi. „Þetta mál er alger rökleysa og skömm að það skuli vera hér á dagskrá,“ sagði Þór og bætti við að það yrðu farsæl endalok ef málinu yrði vísað frá síðar í dag.
Bjarni sagði, að Þór treysti ekki þinginu til að fjalla um málið og vildi taka það af dagskrá. Það væru hins vegar grundvallarmannréttindi að verja, að menn væru ekki dregnir fyrir dómstóla að ósekju.
Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að ekkert nýtt hefði komið fram í málinu, sem renndi stoðum undir að Alþingi ætti að taka nýja ákvörðun og falla frá ákæru. Hafi hins vegar einhverjir skipt um skoðun séu þeir hinir sömu að viðurkenna, að þeir hafi tekið ákvörðun sína á pólitískum forsendum en ekki efnislegum.