Siðleysi viðhelst

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir Mbl/Kristinn

„Fyrir þremur árum síðan brunnu í brjósti margra íslendinga bæði sárindi og reiði en jafnframt vonir og væntingar. Vonir um að nú myndu hlutirnir breytast og að okkur tækist að byggja upp betra og sanngjarnara samfélag [...] Ég er þeirrar skoðunar að við séum mjög langt frá því að hafa í raun og sann gert upp hrunið, lært af því, breytt og bætt það sem á hefur verið bent,“ sagði Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, í upphafi ræðu sinnar í umræðum á Alþingi um hvort draga eigi til baka ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.

Sagði hún m.a. að það væri siðlaust að leiða einn mann fyrir dóm og að menn töluðu um siðbót en í raun væri stundað siðleysi. „Pólitíkin brást fyrir hrun og hún hefur brugðist eftir hrun.“

Þá gagnrýndi Guðfríður Lilja harðlega Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í ræðu sinni í kvöld en Jóhanna var á sínum tíma í ríkisstjórn með Geir H. Haarde.

„Þegar horft er til þess að ráðherra í núverandi ríkisstjórn, sem jafnframt var ráðherra í hrunstjórninni, berst með hótunum fyrir því að koma í veg fyrir að þessi tillaga fái eðlilega þinglega meðferð. Það er eins og allt sé nú gleymt og ég spyr; er það rétt að þurrka út úr sögulegri vitund okkar að núverandi forsætisráðherra var í ráðherranefnd um ríkisfjármál í ríkisstjórn Geirs H. Haarde í aðdraganda hrunsins? Á þeim tíma sem ákært er fyrir.“

Sagðist hún ennfremur trúa því að unnt væri að gera upp fortíðina með róttækum hætti, væri almennt fyrir því vilji, og að byggja mætti betra samfélag sem kynni að reynast komandi kynslóðum uppbyggilegra umhverfi.

Megum ekki hunsa grunngildi réttarríkisins

„Eitt er hins vegar víst; við getum ekki og megum ekki byggja uppgjör við óréttlæti fortíðar á því að hunsa grunngildi réttarríkisins og að láta tilganginn helga meðalið,“ sagði Guðfríður Lilja og benti á að grunngildin væru m.a. þau að ákæruvaldinu bæri skylda til að gæta fyllsta jafnræðis milli hugsanlegra sakborninga og að horfa til samhengis hlutana. „Hvorki stjórnmálaskoðanir, persónuleg tengsl, né duttlungar mega ráða.“

„Nú er hávær krafa um það víða í samfélaginu að það verði að leiða Geir H. Haarde til saka þar sem einfaldlega einhver verði að bera ábyrgð. Ég er sammála því að það eru ömurleg skilaboð út í samfélagið að enginn beri ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut,“ segir Guðfríður Lilja og bætir við að þeim skilaboðum verði að breyta með því að taka til skoðunar hvernig fólk axli ábyrgð í íslensku samfélagi. 

„En það skiptir máli að við berum okkur rétt að; að við réttlætum ekki óréttlæti með nýju ranglæti.“

Ennfremur sagði Guðfríður að skýrsla þingmannanefndarinnar fjallaði um nauðsyn breyttra og bættra vinnubragða til framtíðar en staðreyndin sem blasti við væri í raun sú að litlu hefði verið breytt hvað varðar vinnubrögð og nálgun á pólitísk viðfangsefni. „Hvað skyldu ákærendur hér á Alþingi segja um okkar eigin vinnubrögð? Ætli þau standist skoðun? Ég ætla að hlífa okkur við að nefna dæmin en svar mitt er að þau standist ekki skoðun. Ég sé ekki í verki lærdóm okkar af hruninu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert