Sigurður Árni Þórðarson, prestur í Neskirkju, hefur ákveðið að gefa kost á sér í embætti biskups Íslands.
Í tilkynningu sem Sigurður sendi frá sér segir að framtíð kirkjunnar sé honum efst í huga, hann vill breyta henni og efla. Hann segir að kirkjan eigi að vera framsækin, frjálslynd, lífleg og öllum opin. Kirkjan eigi að heyra gagnrýni, gera upp og vera traustsins verð.
„Biskup þjóðkirkjunnar á að beita sér fyrir að kirkjan sé öruggt og gott samfélag. Biskup á að vera fús til samtals, vera virkur þátttakandi í menningarþróun, veita andlega leiðsögn, vera prestur prestanna og þjóðarprédikari. Til að sinna þessu hlutverki þarf að létta af biskupsembættinu hlutverki framkvæmdastjóra kirkjunnar,“ segir Sigurður.
Hann segir að þjóðkirkja eigi að efla jafnrétti og virkni allra aldurshópa í kirkjunni og að biskup Íslands eigi að beita sér fyrir jafnri stöðu kvenna og karla.
Til að kirkjan eigi sér framtíð þarf æskulýðsstarf að vera forgangsstarf þjóðkirkjunnar,“ segir Sigurður. „Þjóðkirkjan er á krossgötum. Til safnaða hennar, starfsfólks og stofnana er kallað hátt og snjallt af Guði og mönnum. Ég býð mig fram til þjónustu.“