Tel að við höfum gert mistök

Atli Gíslason, lengst til vinstri á myndinni, á Alþingi í …
Atli Gíslason, lengst til vinstri á myndinni, á Alþingi í dag. mbl.is/Eggert

Atli Gíslason, óháður þingmaður, sagði á Alþingi í dag að hann teldi að þingið hefði gert mistök með því að ákæra aðeins einn fyrrverandi ráðherra en ekki þá fjóra, sem þingmannanefnd lagði til að yrðu ákærðir fyrir vanrækslu.

Atli var formaður þingmannanefndar, sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Meirihluti þingmannanefndarinnar lagði til að fjórir fyrrverandi ráðherrar skyldu ákærðir. Atli sagði í dag, að um hefði verið að ræða eina tillögu en ekki fjórar sjálfstæðar tillögur eins og greidd voru atkvæði um haustið 2010 og síðan tillöguna í heild sinni.

Sagði Atli, að fyrirkomulag atkvæðagreiðslunnar hefði verið bjagað og einnig hefði verið rétt, í ljósi mjög svo breyttra forsendna, að fresta síðustu atkvæðagreiðslunni og kalla þingmannanefndina saman að ný til að fjalla um þessar breyttu forsendur.

„Ég hygg að okkur hafi orðið á mistök, þar á meðal þeim sem hér stendur, og dæmi það ef til vill fyrst og fremst á því, að flestir ef ekki allir þingmenn yfirgáfu þingsal eftir atkvæðagreiðsluna með stein í maganum og óbragð í munninum. Ef til vill olli sú spenna og geðshræring, sem var í þingsal, því að atkvæðagreiðslu um málið í heild var ekki frestað," sagði Atli. „Það er gott að vera vitur eftir á og rétt að vera vitur eftir á geri maður mistök."

Atli sagði, að rík ástæða væri til að þingnefnd færi ýtarlega og faglega yfir þingsályktunartillögu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, eftir fyrri umræðu um tillöguna. Sagði Atli, að frávísunartillagan, sem fjórir þingmenn, sem sátu í þingmannanefndinni, hafa lagt fram við tillögu Bjarna Benediktssonar, vega alvarlega að virðingu Alþingis.

Bjarni sagði, að hefði einhver verið í vafa um að tilefni væri til að leggja fram tillögu þá sem hann lagði fram, hljóti sá hinn sami að hafa sannfærst eftir að hana hlýtt á ræðu Atla.

Sigurður Ingi Jóhannesson, þingmaður Framsóknarflokks, sem einnig sat í þingmannanefndarinnar, sagðist einnig hafa talið, að málið hefði tekið eðlisbreytingum þegar aðeins var ákveðið að ákæra einn fyrrverandi ráðherra en ekki alla fjóra. Sagðist hann taka undir þá skoðun Atla, að þingið hefði gert mistök með því að ljúka atkvæðagreiðslunni á sínum tíma án umfjöllunar.  Nú hefðu þingmenn tækifæri til að fara yfir málið aftur og fara ýtarlega yfir það.

Atli sagði síðar í umræðunni, að hann vildi velta við öllum steinum og skoða hvort þau sjónarmið, sem koma fram í tillögu Bjarna, séu rétt eða röng. Að því loknu muni hann taka efnislega afstöðu til málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka