„Sumir þessara þingmanna hafa sjálfir hér lagt til í þinginu tillögu um að Alþingi grípi inn í algjörlega óskyld mál,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, í umræðum á Alþingi í morgun um þingsályktunartillögu sjálfstæðismanna um að Landsdómsákæra á hendur Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra, yrði dregin til baka.
Vísaði hann til þess að nokkrir þingmenn hefðu talað um að Alþingi ætti ekki að skipta sér af dómsmálinu gegn Geir.
Gunnar skírskotaði þar til þingsályktunartillögu sem Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, lagði fram á Alþingi 12. maí 2010 um að skrifstofustjóra þingsins yrði falið að fara þess á leit við ríkissaksóknara að ákæra á hendur svonefndum nímenningum, fyrir að hafa rofið friðhelgi og fundafrið Alþingis í desember 2008, yrði dregin til baka.
Um haustið sama ár lögðu nokkrir þingmenn ennfremur fram þingsályktunartillögu um að Alþingi ályktaði að brot níumenninganna vörðuðu að mati þingsins ekki við 100. grein almennra hegningalaga eins og málið gegn þeim byggði á.
Síðari þingsályktunartillagan var flutt af þingmönnunum Merði Árnasyni, Álfheiði Ingadóttur, Margréti Tryggvadóttur, Birni Val Gíslasyni, Sigmundi Erni Rúnarssyni, Birgittu Jónsdóttur, Lilju Mósesdóttur, Þráni Bertelssyni og Valgerði Bjarnadóttur.