70 ár eru liðin nú um helgina síðan heimilisfólkið í Veturhúsum við Eskifjörð bjargaði yfir 40 breskum hermönnum, sem höfðu farið fótgangandi frá Reyðarfirði yfir fjalllendið áleiðis til Eskifjarðar.
Hermennirnir lögðu af stað að morgni hins 20. janúar árið 1942 í blíðviðri en hrepptu voðaveður, afspyrnurok og úrhelli þegar leið á daginn. Alls voru 69 breskir hermenn í þessari för og létust níu þeirra.
Þessarar ferðar og björgunarafreksins var minnst inn við tóftir Veturhúsa með blómvendi, friðarljósum og fánum auk minningarorða og lestri úr samtímaheimildum.
Magnúsi Pálssyni, einum þeirra sem stóðu að björgun hermannanna, var boðið í breska sendiráðið, þar sem hann tók á móti viðurkenningu og virðingarvotti frá embættismanni breska hersins. Magnús, systkini hans og móðir þykja hafa sýnt fádæma fórnarlund og ósérhlífni við björgun hina hröktu hermanna í aftakaveðri.