Guðfríður Lilja Grétarsdóttir þingmaður Vinstri grænna segir að þótt þingmenn hafi ekki viljað vísa frá tillögu um að falla frá kæru á hendur Geir H. Haarde þýði það ekki að þeir vilji draga kæruna til baka. Mikill þrýstingur hafi verið á þingmenn um að vísa málinu frá án efnislegrar umfjöllunar.
„Mér finnst það ólýðræðislegt í hæsta máta að leyfa þingmáli ekki að koma til efnislegrar umfjöllunar,“ sagði Guðfríður Lilja sem er gestur Vikulokanna á Rás 1 ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni og Margréti Tryggvadóttur. Hún sagði jafnframt að það væri ekkert leyndarmál að forsætisráðherra hefði sett mikinn þrýsting á sína flokksmenn að vísa málinu frá til að það fengi ekki þinglega meðferð.
Guðlaugur Þór tók undir með Guðfríði Lilju og sagði að jafnvel þótt meirihluta þingmanna þætti eitthvert mál vera „arfageggjað“ þá væri ekki gott að setja það fordæmi að eðlilegt væri að vísa slíkum málum bara frá án efnislegrar umfjöllunar. „Þá erum við komin á stað sem við viljum ekki vera á,“ sagði Guðlaugur.
Guðfríður Lilja neitaði ásökunum um að þeir sem kusu gegn frávísuninni í gær vilji ekki gera upp hrunið. Hún sagði málið gegn Geir byggjast á mjög afmörkuðum þáttum nokkrum mánuðum fyrir hrun. „Ætlar einhver að segja mér að það sé uppgjör við hrunið? Er þetta ekki frekar hvítþvottur fólks sem sat sjálft í hrunstjórninni en situr núna í feitum embættum eða er hluti af sjálfu ákæruvaldinu?“ Hún sagði að uppgjör við hrunið þyrfti að ná lengra aftur og rista dýpra en svo.
Margrét Tryggvadóttir sagði hins vegar að málið gegn Geir væri ekki uppgjör gegn hruninu eitt og sér, en það væri liður í uppgjörinu. „Mér fannst þetta ömurlegur dagur,“ sagði Margrét um gærdaginn á Alþingi og lýsti þeirri skoðun sinni að boða ætti til kosninga. „Í kosningunum 2009 vissi fólk ekki hvað hafði gerst hérna, það vissi það ekki fyrr en skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom.“