Alvarlegt pólitískt inngrip í réttarkerfið

SKúli Helgason ásamt kollegum sínum á Alþingi.
SKúli Helgason ásamt kollegum sínum á Alþingi. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Skúli Helgason þingmaður Samfylkingarinnar segir að málatilbúnaðurinn á Alþingi í gær sé alvarlegt pólitískt inngrip í gang réttarkerfisins sem vegi að grundvallarreglu stjórnskipunarinnar um þrígreiningu ríkisvaldsins.

Skúli birtir pistil á bloggi sínu í dag sem byggir á ræðu hans í Alþingi í gær, en hann kaus með því að þingsályktunartillögu Bjarna Benediktssonar yrði vísað frá. Skúli segir máli sínu til stuðnings að um leið og ákveðið sé að kæra ráðherra sé málið komið í ferli Landsdóms og þar með úr höndum Alþingis.

„Í lögunum um Landsdóm er ekki að finna nein ákvæði um heimild til Alþingis að fella niður kæru sem þingið hefur áður gefið út á grundvelli laganna um ráðherraábyrgð,“ segir Skúli á bloggi sínu. Þá hafi hvergi komið fram að ákæra hafi byggst á röngum upplýsingum, engin gögn komið fram sem sanni sakleysi sakbornings, heldur ekki að fram hafi komið nýjar upplýsingar sem breyti forsendum ákærunnar í grundvallaratriðum.

„Það er því mín niðurstaða að þingsályktunartillaga Bjarna Benediktssonar feli í sér óeðlilegt inngrip Alþingis í framgang dómsmáls sem er til meðferðar í réttarkerfinu og þingið myndi með samþykkt tillögunnar taka sér stöðu sem ekki er í samræmi við fyrirmæli stjórnarskrárinnar um aðgreiningu löggjafarvalds og dómsvalds.“

Þá bendir Skúli á að hvorki Landsdómur sjálfur né saksóknari hafi talið ástæðu til að draga ákæruna til baka. Því sé mikilvægt að Alþingi virði þann feril sem málið er í en freisti þess ekki að stöðva framgang þess.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert