„Svartur dagur í sögu lýðræðis okkar. Við reyndum að benda á að þingið gæti ekki eitt og sér úrskurðað um ráðherraábyrgð á sínum tíma og fengum mikla háðung og skammir fyrir. Við vorum vænd um að eyðileggja traustið á þingið sem þó var nú ekki mikið þá.“
Þetta skrifaði Birgitta Jónasdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, á facebooksíðu sína eftir miðnætti í gær í kjölfar þess að meirihluti Alþingis hafnaði því að taka þingsályktunartillögu af dagskrá þingsins um að landsdómsákæra á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, yrði dregin til baka.
„Ekki er líklegt að þessi dagur hafi aukið virðingu almennings gagnvart þeim sem lofuðu að gæta almannahagsmuna en ekki sinna eigin sérhagsmuna fyrir kosningar 2009,“ sagði Birgitta ennfremur en hún studdi frávísunartillöguna.
Ragnheiður Elín Árnasóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, nálgast málið með talsvert öðrum hætti á sinni facebooksíðu en hún greiddi atkvæði gegn frávísunartillögunni, eða svonefndri rökstuddri dagskrártillögu:
„Þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi - nema Hreyfingunni - tóku höndum saman um að tryggja að þingsályktunartillaga Bjarna Benediktssonar fengi þinglega meðferð. Ég er stolt af því að tilheyra þeim hópi.“