Griðasvæði hvala verði stækkað

Langreyður skorin í Hvalfirði.
Langreyður skorin í Hvalfirði. Mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Þrír þingmenn leggja til að griðasvæði hvala í Faxaflóa verði stækkað og enn fremur að tryggt verði griðasvæði hvala fyrir norðan land, með þeim rökum að hvalaskoðun sé orðin æ mikilvægari grein innan ferðamennskunnar. Þingsályktunartillaga þess efnis var lögð fyrir Alþingi í gær en flutningsmenn hennar eru Mörður Árnason, Birgitta Jónsdóttir og Árni Þór Sigurðsson.

Sömu þrír þingmenn leggja einnig til að gagnger endurskoðun verði gerð á skipulagi og forsendum hvalveiða við Ísland. Þingmennirnir vísa í nýlega ályktun Hvalaskoðunarsamtaka Íslands þar sem vakin var athygli á því að yfir 70.000 ferðamenn færu á þessu ári í hvalaskoðun frá Reykjavík og um 60.000 frá Norðurlandi. Fyrirtækin vöruðu við því að héldu hrefnuveiðar áfram á Faxaflóa eins og undanfarin ár væri hætta á því að hvalaskoðun legðist þar af.

„Í þessu ljósi virðist ljóst að verið sé að fórna miklum hagsmunum fyrir litla með veiðum á helstu skoðunarslóðum,“ segir í greinargerð með tillögunni um stækkun griðasvæða hvaða. Lagt er til að svæðið nái frá Eldey í suðri að ysta odda Snæfellsness í norðri.

Í greinargerð með tillögunni um gagngera endurskoðun á hvalveiðum segir að ekki liggi fyrir neinar tölur um tekjur af útflutningi hvalkjöts, sem aðeins hefur verið til Japans. Lagt er til að kannað verði hvort Ísland og ímynd þess hafi orðið fyrir skaða vegna veiðanna og hvaða áhrif þær hafi haft á fiskútflutning til ríkja þar sem hvalveiðar eru illa þokkaðar. Ljóst sé að það spilli jafnan fyrir hagsmunum íslenskra útflutningsgreina þegar stjórnvöld heimili hvalveiðar á ný og því sé ekki að sjá að þeir fjármunir sem íslensk stjórnvöld hafa varið í að afla meintri hvalveiðistefnu Íslendinga skilnings hafi nýst vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert