Hverfa á frá barnaklámi

Hver sem skoðar myndir, myndskeið eða aðra sambærilega hluti sem …
Hver sem skoðar myndir, myndskeið eða aðra sambærilega hluti sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt á netinu eða með annarri upplýsinga- eða fjarskiptatækni skal sæta refsingu, skv. frumvarpi sem lagt hefur verið fyrir Alþingi. Morgunblaðið/Kristinn

Eitt þeirra álitamála sem rædd voru á ráðstefnu um kynferðisofbeldi sem fram fór í gær var hvort rétt væri að nota orðið barnaklám. Róbert R. Spanó, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, tók undir það með öðrum, að ástæða væri til að kanna breytingu á hugtakanotkun.

Róbert hélt erindi á ráðstefnunni um frumvarp innanríkisráðherra til breytinga á almennum hegningarlögum, einkum kaflanum sem snýr að kynferðisbrotum, en frumvarpið var samið í tilefni af fyrirhugaðri fullgildingu á samningi Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun.

Refsiréttarnefnd samdi frumvarpið að tilstuðlan ráðherra en Róbert er formaður þeirrar nefndar. Hann fór yfir helstu breytingar sem verða, fari svo að Alþingi samþykki frumvarpið.

Meðal þeirra breytinga er að fyrningarfrestur brota sem lúta að vændi barna og þátttöku barna í nektarsýningum og mansalsbrota gegn börnum hefst ekki fyrr en við 18 ára aldur þess sem í hlut á. Þá verður refsivert að mæla sér mót við barn með samskiptum um netið eða annarri upplýsinga- eða fjarskiptatækni í því skyni að hafa við það samræði, önnur kynferðismök eða áreita barnið kynferðislega með öðrum hætti.

Einnig að bætt verði við lögin sérstöku ákvæði um barnaklám, sem hefur að geyma fyllri ákvæði, þar á meðal um að svonefnd „barngerving“ verði gerð refsiverð.

Eftir erindi Róberts spurði Margrét Júlía Rafnsdóttir verkefnastjóri hjá Barnaheilum hvort ekki hefði komið til greina að nota annað orð en barnaklám. Hún sagði að erlendis væri verið að reyna hverfa frá notkun orðsins barnaklám (e. child pornography) og það sama ætti að gera hér landi. Margrét sagði að frekar ætti að tala um kynferðislegt ofbeldi eða myndir af kynferðislegu ofbeldi gegn börnum. Forðast ætti að tengja saman klám og börn, og raunar einnig börn og vændi.

Fleiri ráðstefnugestir tóku undir orð Margrétar og svo einnig Róbert sjálfur. Hann sagði merkingu hugtaka geta breyst en nefndin hefði notað hugtak sem náð hefði fótfestu. „Ég tel koma til að greina að allsherjarnefnd Alþingis taki þetta til athugunar, ef þróun á alþjóðavettvangi er að hverfa frá klámi og vændi þegar kemur að börnum.“

Róbert Ragnar Spanó
Róbert Ragnar Spanó Morgunblaðið/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert