Ríkisstjórnin ekki í hættu

Jón Bjarnason, Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir
Jón Bjarnason, Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir Kristinn Ingvarsson

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra telur ekki hættu á því að ríkisstjórnin falli vegna atkvæðagreiðslunnar sem var í gær um frávísunartillögu gegn tillögu Bjarna Benediktssonar, formans Sjálfstæðisflokksins, um að draga til baka ákæru Alþingis á Geir H. Haarde. En frávísunartillagan var felld með 31 atkvæði gegn 29 og verður tillaga Bjarna því tekin fyrir.

„Ég tel fráleitt að þetta hafi áhrif á stjórnarsamstarfið. Það voru menn beggja skoðana í stjórnarflokknum og í mínu tilviki var ég samkvæmur sjálfum mér í þessu máli og svo var um marga aðra, bæði stjórnar- og stjórnarandstöðuþingmenn,“ segir Össur.

Varðandi tillögu Bjarna segist Össur ætla að vera samkvæmur sjálfum sér en hann studdi ekki ákvörðun Alþingis að leggja fram ákæru á hendur Geir H. Haarde né öðrum fyrrverandi ráðherrum árið 2010.

„Það kemur alltaf titringur af alls konar tilefni í stjórnmálum en það sem mér þykir mikilvægt er að vera samkvæmur sjálfum sér og það var ég og ætla að vera í þessu máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert