Evrópustofa, upplýsingamiðstöð Evrópusambandsins á Íslandi hefur tekið til starfa og býður til opins húss í dag á Suðurgötu 10 í Reykjavík. Upplýsingamiðstöðin verður opin sex daga vikunnar en markmiðið með starfseminni er að auka skilning og þekkingu á ESB og hvetja til virkrar umræðu um kosti og galla mögulegrar aðildar Íslands.
Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastýra Evrópustofu, segir að þar séu allir velkomnir, óháð afstöðu til ESB eða mögulegrar aðildar Íslands. „Við munum leitast við að svara spurningum sem varða Evrópusambandið og aðstoða fólk við að afla upplýsinga á eigin vegum, til dæmis um verkefni og sjóði sambandsins,“ segir Birna. Einnig verður í Evrópustofu boðinn aðgangur að blaða- og bókakosti með lesefni um ESB.
Í opna húsinu í dag verður boðið upp á léttar veitingar, þ.á m. „Evrópuköku“, belgískar vöfflur, frönsk horn, íslenskar kleinur og kaffi og kakó, að því er fram kemur í tilkynningu. Sigríður Thorlacius og Guðmundur Óskar Guðmundsson syngja og spila og gestum gefst kostur á því að prófa þekkingu sína í Evrópumálum og tjá skoðun sína á „kassanum“ þar sem hægt verður að kveðja sér hljóðs og flytja erindi.
Þá efnir Evrópustofa til ljósmyndasamkeppni þar sem þemað er Ísland og Evrópa, en þátttakendur eru hvattir til að fanga á mynd hvernig Evrópa og Evrópusambandið birtast í okkar daglega lífi og umhverfi. Nánari upplýsingar eru á vef Evrópustofu.