Lýsa vantrausti á forseta Alþingis

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis. mbl/Ómar

Ungir jafnaðarmenn sendu í kvöld frá sér ályktun þar sem þeir gagnrýna Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur forseta Alþingis fyrir að taka tillögu sjálfstæðismanna um að draga málshöfðun gegn Geir H. Haarde á dagskrá. Þeir telja tímabært að kjósa nýjan forseta.

Ungir jafnaðarmenn telja að málshöfðunin gegn Geir H. Haarde sé stjórnskipulega í réttum farvegi. Landsdómur hafi metið meginhluta ákærunnar tæka til efnislegrar meðferðar. Dómstóllinn eigi nú aðeins eftir að takast á við spurninguna um sekt eða sýknu Geirs H. Haarde. 

„Það er ekki einungis óeðlilegt að Alþingi skerist í leikinn með þeim hætti sem lagt er til í tillögu formanns Sjálfstæðisflokksins, heldur er það beinlínis hættulegt í stjórnskipulagi sem byggir á þrískiptingu ríkisvaldsins. Með því að greiða atkvæði með áframhaldandi meðferð tillögunnar tóku fjórir þingmenn Samfylkingarinnar afstöðu gegn sjálfstæði Landsdóms og þar með dómsvaldsins í heild. Í huga Ungra jafnaðarmanna getur slík afstaða aldrei samræmst hugsjónum jafnaðarmanna um réttarríki og mikilvægi valddreifingar í samfélaginu.

Sérstaklega þykir Ungum jafnaðarmönnum forkastanlegt að forseti Alþingis, æðsti fulltrúi löggjafarvaldsins samkvæmt stjórnarskránni, skuli taka afstöðu gegn dómsvaldinu með þessum hætti. Því lýsir miðstjórn Ungra jafnaðarmanna vantrausti á forseta Alþingis, og krefst þess að þingmönnum verði sem fyrst veitt tækifæri til þess að kjósa sér nýjan forseta.

Ungir jafnaðarmenn harma að þessir þingmenn Samfylkingarinnar, auk sumra þingmanna Vinstri-Grænna, hafi látið blekkjast til að taka þátt í pólitískum skollaleik formanns Sjálfstæðisflokksins með ófyrirséðum afleiðingum fyrir stöðu ríkisstjórnarinnar og stöðu Landsdóms sem dómstóls. Ungir jafnaðarmenn lýsa fullkominni vanþóknun sinni á því dómgreindarleysi sem þingmennirnir, þ.m.t. tveir núverandi ráðherrar og fjórir fyrrverandi ráðherrar, hafa sýnt í þessu máli,“ segir í ályktunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka