„Það er greinilega mikill hiti sem fylgir þessu landsdómsmáli og mjög miklar skoðanir eru uppi,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra en Þráinn Bertelsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, hefur m.a. lýst því yfir að Ögmundur ætti að segja af sér.
Við atkvæðagreiðslu sem fram fór á Alþingi fyrir helgi studdi Ögmundur ekki frávísunartillögu sem sett var fram vegna tillögu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, þess efnis að ákæra á hendur Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra, yrði felld niður.
„Ég hef gert grein fyrir minni afstöðu í fjölmiðlum svo flestir ættu að þekkja til hennar en að öðru leyti þá hlusta ég á viðhorf og yfirlýsingar fólks,“ segir Ögmundur en hann kveðst ekki ætla að tjá sig frekar um málið að svo stöddu.