„Ég hef lýst því yfir að ég vilji að hann segi af sér sem allra fyrst,“ segir Þráinn Bertelsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, og vísar til Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra.
„Innanríkisráðherra sem farinn er að kveða upp Salómonsdóma finnst mér vera farinn að taka sjálfan sig full hátíðlega fyrir minn smekk. Ef þetta heldur svona áfram þá getur þetta orðið mjög hættulegt lýðræðinu.“
Líkt og kunnugt er þá sögðu tveir ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur nei við atkvæðagreiðslu um frávísunartillögu um að vísa frá þingsályktunartillögu Bjarna Benediktssonar um að ákæra á hendur Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra, yrði felld niður. Auk Ögmundar er um að ræða Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.
„Ég er ekki sammála Össuri og það voru mér vonbrigði að hann skyldi ekki taka sér auka dag til þess að skoða sig um þarna í Rúmeníu en ég hlýt að viðurkenna og virða að hann var sjálfum sér samkvæmur í þessu máli,“ segir Þráinn. Sem kveðst jafnframt vera þeirrar skoðunar að Össur þurfi ekki að segja af sér. „Enda er hann ekki í ríkisstjórn upp á mína ábyrgð. Ég á víst nóg með að bera ábyrgð á þingmönnum Vinstri grænna.“
Þá sagði Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, einnig nei við sömu atkvæðagreiðslu og hefur Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, lýst því yfir í sjónvarpsþættinum Silfri Egils í dag að hún væri búin að efna til undirskriftalista á Alþingi svo lýsa mætti yfir vantrausti á forseta Alþingis.
„Ef ég skil Birgittu rétt þá er listinn þannig hugsaður að undirskriftasöfnunin er leynileg og það verður ekki gert uppskátt um hverjir eru á listanum fyrr en 32 eru komnir á hann. Það passar mér mjög vel.“
Þá kveðst Þráinn enn vera stuðningsmaður ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. „Hún verður að þrauka og klára þetta kjörtímabil.“
Jón Bjarnason og Árni Páll Árnason, fyrrum ráðherrar, sögðu jafnframt nei við atkvæðagreiðsluna.