BYKO segist að fullu standa við fyrri yfirlýsingar um að almennt verð á öllum vörum í versluninni hafi verið lækkað um 1-35% og að meðaltalsverðlækkun hafi verið 10-15%.
Múrbúðin hefur kært BYKO til Neytendastofu vegna auglýsingaherferðar sem BYKO hóf um áramótin. Segir Múrbúðin, að fullyrðingar um allsherjar verðlækkun á öllum vörum BYKO séu villandi og ósannar enda hafi afslættir verið felldir niður á sama tíma.
Bendi verðkönnun til þess að verð á vörum hjá BYKO hafi lækkað mun minna en fyrirtækið fullyrði, eða um 2-6%. Hafi þriðjungur vara lækkað um 10-15% eins og auglýst sé en tveir þriðju varanna hafi lækkað minna, ekkert lækkað eða jafnvel hækkað í verði.
Neytendastofa hefur gefið BYKO frest til loka vikunnar til að gera athugasemdir. Í tilkynningu, sem BYKO sendi frá sér síðdegis segir, að þetta mál sé komið til vegna verðkönnunar, sem einn af keppinautum BYKO hafi gert með því að senda eigið starfsfólk á vettvang. Fyrir utan trúverðugleika slíkrar könnunar hafi verulegir annmarkar komið í ljós í framkvæmd könnunarinnar.
Í fyrsta lagi nái könnunin einungis til 60 vörutegunda af þeim þúsundum sem séu í hillum BYKO. Í öðru lagi sé algengt að annars vegar sé borið saman auglýst tímabundið tilboðsverð sem í gildi var 1. nóvember sl. og hins vegar almennt verð viðkomandi vörutegunda 13. janúar sl. Að auki finnast dæmi um beinar villur í verðsamanburði.
„BYKO hefur í kynningarstarfi sínu margítrekað að auk umtalsverðrar hagræðingar í rekstri sé grundvöllur þessarar verðlækkunar meðal annars niðurfelling ýmissa afsláttarkjara og tímabundinna tilboða. Að fullu er staðið við fyrri yfirlýsingar um verðlækkun almenns verðs á öllum vörum á bilinu 1-35% og meðaltalsverðlækkunina 10-15%. Markmið BYKO með þessari breytingu er í fyrsta lagi að lækka verð til allra viðskiptavina en ekki útvaldra, í öðru lagi að auka gegnsæi og mæta breyttri samkeppni á nýjum forsendum og í þriðja lagi að sækja ný viðskipti til ungs fjölskyldufólks með auknu vöruvali til viðhalds og reksturs heimilanna,“ segir í tilkynningu BYKO.