Jón Helgi Hálfdanarson, meðhjálpari í Hveragerði, og eiginkona hans, Jóna Einarsdóttir, urðu fyrir því óhappi á laugardagskvöld að velta Toyota Landcruiser-jeppa sínum í Kömbunum en sluppu algerlega ómeidd.
Jón Helgi notaði umræddan bíl lengi sem líkbíl, setti þá svartar gardínur með gullnum krossum yfir rúðurnar.
„Ég bað góðan Guð að hjálpa mér þegar ég fann að hann var kominn á skrið,“ segir Jón Helgi í Morgunblaðinu í dag. „Bíllinn lenti á handriði, afturendinn lyftist og hann þeyttist 200-300 metra niður í mjúkan snjóinn í brekkunni, lenti á toppnum en fór síðan annan hring og lenti loks á hjólunum. Snjórinn bjargaði okkur.“