Mikil og útbreidd óánægja

Ólína Þorvarðardóttir, t.h., ásamt fleiri þingmönnum á Alþingi á föstudag.
Ólína Þorvarðardóttir, t.h., ásamt fleiri þingmönnum á Alþingi á föstudag. mbl.is/Eggert

„Ég skynja bara mikla og útbreidda óánægju með að þetta mál skyldi vera tekið inn í þingið og síðan að það skyldi ekki takast að vísa því frá. Það er bara mjög þung undiralda enda var náttúrlega meirihluti þingflokksins á móti þessari dagskrártillögu og það fólk er náttúrlega mjög óánægt.“

Þetta segir Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, aðspurð hvernig hún upplifi stöðu mála í þingflokki flokksins í kjölfar atkvæðagreiðslunnar á Alþingi síðastliðinn föstudag þar sem hafnað var að taka af dagskrá þingsins þingsályktunartillögu sjálfstæðismanna um að landsdómsákæran á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, yrði dregin til baka.

Úrslit atkvæðagreiðslunnar urðu þau að 31 þingmaður kaus gegn því að taka málið af dagskrá en 29 studdu það.

Þrír þingmenn Samfylkingarinnar greiddu atkvæði gegn því að þingsályktunartillagan yrði tekin af dagskrá, Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, Kristján L. Möller, fyrrverandi samgönguráðherra, og Árni Páll Árnason, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra. Þá hefur Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður flokksins, sagt að hann hefði einnig kosið gegn því að taka tillöguna af dagskrá en hann var staddur erlendis þegar atkvæðagreiðslan fór fram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert