Persónuvernd ekki borist kvörtun

Ólafur Ragnar Grímsson.
Ólafur Ragnar Grímsson. Kristinn Ingvarsson

Persónuvernd hefur ekki borist erindi eða kvörtun vegna undirskriftarsöfnunar þar sem skorað er á Ólaf Ragnar Grímsson að gefa kost á sér til forsetakjörs í sumar. Framkvæmdin hefur hins vegar verið nokkuð til umræðu á samskiptasíðum.

Töluvert hefur borið á því að fólk skori á Ólaf Ragnar undir fölsku nafni og kennitölu. Fyrstur var líklega þáttarstjórnandi hjá síðdegisútvarpi Ríkisútvarpsins en sá tilkynnti í beinni útsendingu að hafa skráð sig undir nafninu Guðni Arnalds.

Fréttavefurinn Vísir birti auk þess í morgun frásögn af því að blaðamaður þaðan hefði gert slíkt hið sama en undir nafninu Mikki Mús. Og þá má nefna frétt mbl.is þar sem vísað er í bloggfærslu þar sem undirskriftarsöfnunin er gagnrýnd.

Oftar en ekki kemur fram gagnrýni á undirskriftarsafnanir hér á landi. Árið 2004 var leitað til Persónuverndar og kvartað yfir því að nöfn og kennitölur hefðu verið skráðar á undirskriftalistann askorun.is án þess að viðkomandi einstaklingar hefði óskað eftir því að vera bætt á listann. Róbert Marshall sem stóð að söfnuninni fullyrti þá að um væri að ræða öruggustu undirskriftasöfnun sem fram hefði farið á Íslandi.

Þá birti Persónuvernd ákvörðun í maí 2011 þar sem sagði að Dráttur samtakanna Samstaða þjóðar gegn Icesave á að svara tilteknum einstaklingi um hvort kennitala hans hafi verið skráð á undirskriftalista á vefsíðunni kjosum.is stríði gegn lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Í síðara tilvikinu afhentu aðstandendur kjosum.is Ólafi Ragnari 41 þúsund undirskriftir, en þá gagnrýndu margir að ekki væri hægt að athuga hvort kennitala þeirra væri á skrá. Aðstandendur fengu þá óháða aðila til að samkeyra undirskriftarlistann við þjóðskrá, en einnig var hringt í fólk af listanum. Við það fækkaði undirskriftum um 187.

Á vefsvæðinu askoruntilforseta.is má sjá að tæplega 16 þúsund manns hafa skrifað undir áskorunina. Engin leið er þó að sjá nöfn þeirra né hvernig aðstandendur hyggjast tryggja að fólk geti kannað, að nafn þeirra eða kennitala sé á listanum.

Eins og segir í ákvörðun Persónuverndar sem um er getið hér að ofan skal erindi þess efnis afgreitt svo fljótt sem verða má og eigi síðar en innan eins mánaðar frá móttöku þess. Ekkert segir þó til um hvernig beri að haga málum ef enginn er móttakandi erindis.

Þá má geta þess að fleiri undirskriftasafnanir eru í gangi vegna forsetaskjörsins. Tæplega eitt þúsund manns skrifa nefnilega undir áskorun þess efnis að Ólafur Ragnar gefi ekki kost á sér í forsetakjörinu í sumar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert