„Skammist ykkar fyrir stjórnunarhætti ykkar“

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, fyrir miðju ásamt fleiri þingmönnum.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, fyrir miðju ásamt fleiri þingmönnum. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ekki ein tilraun hefur verið gerð til að ná samstöðu um eitthvert framfaramál því foringjar Samfylkingar og VG þekkja ekkert annað en átakastjórnmál. Samstöðu þarf til að byggja upp landið, leiðrétta skuldir og gera upp við fortíðina en sú samstaða er ekki til staðar hjá þessum aðilum,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag í tilefni af þeim orðum Björns Vals Gíslasonar, þingflokksformanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í samtali við Ríkisútvarpið að Alþingi virðist ekki hafa burði til þess að gera upp við hrunið.

Gunnar bendir á að Samfylkingin og VG séu við völd í landinu og stjórni bæði því og Alþingi. „Ef eitthvað hefur misfarist er það á ábyrgð þeirra. Þau stjórna í krafti meirihlutans. Valdasýki og foringjaræði forystumanna Samfylkingar og Vinstri grænna ásamt fallinni hugmyndafræði er vandinn,“ segir hann. Færsluna endar Gunnar síðan á eftirfarandi orðum:

„Skammist ykkar fyrir stjórnunarhætti ykkar. Geir H. Haarde [fyrrum forsætisráðherra sem ákærður hefur verið fyrir landsdómi] mun ekki gera upp hrunið fyrir þetta fólk því eftirleikurinn er hluti af hruninu og er á ábyrgð þeirra og þar hafa mikil mistök verið gerð. Neyðarlög Geirs H. Haarde sem allir flokkar nema Vinstri grænir studdu björguðu landinu og vörðu megnið af sparifé fólksins. Þá kom að Jóhönnu og Steingrími sem EKKI hafa bjargað neinu en höfðu þó tækifæri til að leiðrétta skuldir. Kröfuhafarnir fengu það sem átti að fara í leiðréttingar. Þjóðin átti að borga Icesave. Fólkið flýr landið. Svei ykkur.“

Facebook-síða Gunnars Braga Sveinssonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka