Vilja afnema lög um húsmæðraorlof

Aðilar í deilunni um húsmæðraorlofið eru sammála um að lögin …
Aðilar í deilunni um húsmæðraorlofið eru sammála um að lögin hafi verið mikil réttarbót á sínum tíma en eru ósammála um gildi þeirra í dag. Þorkell Þorkelsson

Garðabær, Mos­fells­bær, Ísa­fjarðarbær og Vest­manna­eyja­bær eru meðal þeirra sveit­ar­fé­laga sem kallað hafa eft­ir því að lög um hús­mæðra­or­lof verði felld úr gildi en mikl­ar deil­ur hafa staðið um málið í Hafnar­f­irði und­an­far­in ár.

Sam­kvæmt lög­un­um, nr. 53/​1972, ber sveit­ar­fé­lög­un­um að greiða sem nem­ur um 80 krón­um á íbúa ár hvert til or­lofs­nefnda hús­mæðra sem þar starfa. Hafna­fjarðarbær hef­ur und­an­far­in ár látið um helm­ing þeirr­ar upp­hæðar af hendi til or­lofs­nefnd­ar hús­mæðra í Hafnar­f­irði en samþykkti á dög­un­um að greiða alla upp­hæðina, um 2 millj­ón­ir króna, fyr­ir árið 2011 eft­ir að or­lofs­nefnd­in fékk lög­fræðing í málið.

„Hafna­fjarðarbær er alls ekki eini bær­inn sem hef­ur verið á móti þessu og Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga ályktaði gegn þess­um lög­um fyr­ir um 3 árum,“ seg­ir Hall­dór Hall­dórs­son, formaður stjórn­ar SÍS.

Hann seg­ir lög­in úr­elt og að auki brjóti þau gegn jafn­rétt­is­lög­um en þegar Vest­manna­eyja­bær lagði fram fyr­ir­spurn um málið fyr­ir Jafn­rétt­is­stofu árið 2007, kom fram í svari Jafn­rétt­is­stofu að lík­ur væru á að lög um or­lof hús­mæðra teld­ust brot á lög­um um jafna stöðu og jafn­an rétt kvenna og karla. Það væri þó Alþing­is að af­nema um­rædd lög.

Frum­varp þess efn­is var síðast lagt fyr­ir þing árið 2009 en fór aldrei lengra en til fé­lags- og trygg­inga­mála­nefnd­ar til um­sagn­ar.

Hall­dór seg­ir SÍS hafa mik­inn áhuga á að lög­in verði felld úr gildi og á von á því að málið verði tekið aft­ur upp á Alþingi á næst­unni. Sveit­ar­fé­lög­in vilji losna und­an þeim kostnaði sem lög­in leggja á herðar þeirra, enda falli hús­mæðra­or­lofið tæp­ast und­ir það meg­in­hlut­verk sveit­ar­fé­lag­anna að sinna grunnþjón­ustu við íbúa sína.

Aðilar inn­an Kven­fé­laga­sam­bands Íslands hafa brugðist hart við gagn­rýni á lög­in og segja þau alls ekki úr­elt. Enn séu marg­ar kon­ur að nýta sér or­lofs­rétt­ind­in sem aldrei áttu kost á öðru en að vera heima með börn­in og höfðu þar af leiðandi ekki tæki­færi til þess að vinna sér inn líf­eyr­is­rétt­indi eins og flest­ir karl­menn.

„Þetta eru einu ís­lensku lög­in sem virða hús­móður­starfið til fjár,“ sagði Hild­ur Helga Gísla­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri sam­bands­ins, í sam­tali við Morg­un­blaðið fyr­ir helgi.

Sam­kvæmt lög­un­um eiga all­ar kon­ur rétt á hús­mæðra­or­lofi sem veitt hafa heim­ili for­stöðu án þess að fá greitt fyr­ir. Nem­ur það yf­ir­leitt um 15-20 þúsunda króna niður­greiðslu á skipu­lögðum ferðum or­lofs­nefnd­anna.

Frétt mbl.is um bæj­ar­stjórn Hafn­ar­fjarðar

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert