Vilja afnema lög um húsmæðraorlof

Aðilar í deilunni um húsmæðraorlofið eru sammála um að lögin …
Aðilar í deilunni um húsmæðraorlofið eru sammála um að lögin hafi verið mikil réttarbót á sínum tíma en eru ósammála um gildi þeirra í dag. Þorkell Þorkelsson

Garðabær, Mosfellsbær, Ísafjarðarbær og Vestmannaeyjabær eru meðal þeirra sveitarfélaga sem kallað hafa eftir því að lög um húsmæðraorlof verði felld úr gildi en miklar deilur hafa staðið um málið í Hafnarfirði undanfarin ár.

Samkvæmt lögunum, nr. 53/1972, ber sveitarfélögunum að greiða sem nemur um 80 krónum á íbúa ár hvert til orlofsnefnda húsmæðra sem þar starfa. Hafnafjarðarbær hefur undanfarin ár látið um helming þeirrar upphæðar af hendi til orlofsnefndar húsmæðra í Hafnarfirði en samþykkti á dögunum að greiða alla upphæðina, um 2 milljónir króna, fyrir árið 2011 eftir að orlofsnefndin fékk lögfræðing í málið.

„Hafnafjarðarbær er alls ekki eini bærinn sem hefur verið á móti þessu og Samband íslenskra sveitarfélaga ályktaði gegn þessum lögum fyrir um 3 árum,“ segir Halldór Halldórsson, formaður stjórnar SÍS.

Hann segir lögin úrelt og að auki brjóti þau gegn jafnréttislögum en þegar Vestmannaeyjabær lagði fram fyrirspurn um málið fyrir Jafnréttisstofu árið 2007, kom fram í svari Jafnréttisstofu að líkur væru á að lög um orlof húsmæðra teldust brot á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Það væri þó Alþingis að afnema umrædd lög.

Frumvarp þess efnis var síðast lagt fyrir þing árið 2009 en fór aldrei lengra en til félags- og tryggingamálanefndar til umsagnar.

Halldór segir SÍS hafa mikinn áhuga á að lögin verði felld úr gildi og á von á því að málið verði tekið aftur upp á Alþingi á næstunni. Sveitarfélögin vilji losna undan þeim kostnaði sem lögin leggja á herðar þeirra, enda falli húsmæðraorlofið tæpast undir það meginhlutverk sveitarfélaganna að sinna grunnþjónustu við íbúa sína.

Aðilar innan Kvenfélagasambands Íslands hafa brugðist hart við gagnrýni á lögin og segja þau alls ekki úrelt. Enn séu margar konur að nýta sér orlofsréttindin sem aldrei áttu kost á öðru en að vera heima með börnin og höfðu þar af leiðandi ekki tækifæri til þess að vinna sér inn lífeyrisréttindi eins og flestir karlmenn.

„Þetta eru einu íslensku lögin sem virða húsmóðurstarfið til fjár,“ sagði Hildur Helga Gísladóttir, framkvæmdastjóri sambandsins, í samtali við Morgunblaðið fyrir helgi.

Samkvæmt lögunum eiga allar konur rétt á húsmæðraorlofi sem veitt hafa heimili forstöðu án þess að fá greitt fyrir. Nemur það yfirleitt um 15-20 þúsunda króna niðurgreiðslu á skipulögðum ferðum orlofsnefndanna.

Frétt mbl.is um bæjarstjórn Hafnarfjarðar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert