„Við erum að ræða saman og vinna að málefnasamningi,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, spurður hvernig meirihlutaviðræður Sjálfstæðisflokksins við Næstbesta flokkinn og Lista Kópavogsbúa gangi.
„Eins og við sögðum strax ætlum við að taka góðan tíma í þetta, við höfum ekki sett okkur neinn ákveðinn tímaramma. Við hittumst bæði í gær og í dag og við munum síðan hittast aftur á morgun [í dag],“ bætir Ármann við í frétt í Morgunblaðinu í dag.
Ármann segist ekki vilja tjá sig um efnislegt innihald málefnasamningsins. Fram kom í Morgunblaðinu á laugardag að Sjálfstæðisflokkurinn gerir ekki kröfu um bæjarstjórastólinn í Kópavogi en Listi Kópavogsbúa hefur lagt áherslu á að bæjarstjórinn sé ópólitískur.