Hiti í bæjarstjórn Kópavogs

Rannveig Ásgeirsdóttir, Kópavogslista, Ólafur Þór Gunnarsson VG og Hjálmar Hjálmarsson, …
Rannveig Ásgeirsdóttir, Kópavogslista, Ólafur Þór Gunnarsson VG og Hjálmar Hjálmarsson, Næstbesta flokknum, á kosninganótt eftir síðustu kosningar í Kópavogi, áður en þau fóru í meirihluta með Samfylkingu, sem nú er sprunginn og enginn meirihluti starfandi. hag / Haraldur Guðjónsson

Eftir tiltölulega friðsaman og tíðindalítinn fund bæjarstjórnar Kópavogs nú síðdegis hitnaði bæjarfulltrúum í hamsi í lokin þegar Hjálmar Hjálmarsson, forseti bæjarstjórnar, fékk ekki að setja á dagskrá tillögu sína um breytt verklag í bæjarstjórn, með samvinnu allra kjörinna fulltrúa. Sagði Hjálmar þessi vinnubrögð fáheyrð í sögu bæjarmála í Kópavogi. Ætlar hann að leggja tillöguna fram á næsta fundi bæjarráðs.

Enginn starfandi meirihluti er nú í bæjarstjórn Kópavogs og engar formlegar þreifingar sagðar í gangi. Hjálmar sagði í samtali við mbl.is að tillaga sín um breytt verklag í bæjarstjórn tengdist því ástandi sem ríkti í bænum. Hann sagðist ekki líta svo á að Kópavogur væri stjórnlaus. Í síðustu kosningum hefðu ellefu bæjarfulltrúar verið kjörnir til að vinna að hagsmunamálum sveitarfélagsins.

„Það þarf enga þjóðstjórn, við höfum bæjarstjórn,“ sagði Hjálmar en samkvæmt tillögunni vill hann að í stað núverandi fyrirkomulags, svokallaðs meirihluta/minnihlutasamstarfs, verði komið á samvinnu fulltrúa allra framboða sem eiga kjörinn fulltrúa í bæjarstjórn um starfshætti allra nefnda og ráða sem heyra undir bæjarstjórn. Oddvitum eða fulltrúum framboðanna verði falið að koma sér saman um fyrirkomulag og verkaskiptingu. Lét Hjálmar greinargerð fylgja með tillögunni um nánari útfærslu á breyttu vinnufyrirkomulagi. Vill hann m.a. fjölga fulltrúum í nefndum úr fimm í sjö, m.a. bæjarráði, og að þar verði fulltrúi Sjálfstæðisflokksins formaður og fulltrúi Samfylkingarinnar varaformaður. Í stað meirihlutafundar fyrir bæjarstjórnarfund verði vinnnufundur oddvita allra framboða í bænum. Þá vill Hjálmar að framkvæmdaráð verði lagt niður. Telur hann að þessar tillögur hafi ekki kostnaðarauka í för með sér fyrir bæjarsjóð.

„Fáheyrt einsdæmi“

„Fundurinn hafnaði því að taka tilöguna á dagskrá. Ég þekki ekki sögu sveitarstjórna í landinu mjög vel en ég tel að þetta sé fáheyrt einsdæmi. Ég fékk ekki einu sinni að leggja tillöguna fram, þetta er alveg fáheyrt. Meira að segja í landsdómsmálinu samþykkir Alþingi að taka mál á dagskrá,“ sagði Hjálmar, sem sagðist ekki hafa viljað legja tillöguna fram formlega fyrir fundinn, heldur lét hann bæjarfulltrúa vita af henni símleiðis, alla nema fulltrúa Vinstri grænna.

„Ég vildi leggja tillöguna fram í mínu nafni þannig að menn hefðu ekki tíma til að hafa áhrif á hana. Þetta var mín eigin tillaga og ég vildi fá leyfi fundarins til að leggja hana fram, án þess að kynna hana eitthvað sérstaklega. Mér fannst mjög sérstakt að heyra fulltrúa svona lýðræðiselskandi flokka bregðast svona við, að geta ekki einu sinni tekið á einhverri umræðu sem er óvænt,“ sagði Hjálmar, sem er forseti bæjarstjórnar. Hann sagðist ætla að gegna því starfi áfram, sem hann var kosinn til, á meðan ekkert vantraust kæmi fram.

„Súrt í broti að fá yfir sig skammarræðu“

Ólafur Þór Gunnarsson, bæjarfulltrúi VG, sagði í lok bæjarstjórnarfundarins það óeðlilegt að ætlast til þess að koma fram með tillögu í lok fundar og setja hana á dagskrá. Slíkt þyrfti að gera með minnst tveggja til þriggja sólarhringa fyrirvara en ekki tveggja til þriggja mínútna. Áreiðanlega væri margt gott í tillögu Hjálmars en hann þyrfti að fara eftir vinnureglum bæjarstjórnar. Sagði Ólafur Þór eðlilegt að taka tillöguna fyrir á næsta fundi bæjarráðs og þar á eftir á fundi bæjarstjórnar.

Guðríður Arnardóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar, sagði það súrt í broti að fá yfir sig skammarræðu frá Hjálmari í lok fundarins. Það hefði verið auðvelt fyrir forseta bæjarstjórnar að kynna tillöguna sem ætti að leggja fyrir fundinn eða að taka fundarhlé til að ræða tillöguna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert