Margir gætu hugsað sér að kjósa ný framboð

Kjörkössum safnað saman í alþingiskosningum.
Kjörkössum safnað saman í alþingiskosningum.

Rúmlega helmingur þeirra, sem tóku þátt í nýrri könnun MMR, segir að til greina komi að kjósa eitthvert þeirra nýju framboða, sem eru í undirbúningi.

  • Framboðin sem spurt var um voru eftirfarandi:
  • Björt framtíð (undir forystu Guðmundar Steingrímssonar og Besta flokksins)
  • Nýtt framboð undir forystu Ólafs Ragnars Grímssonar
  • Nýtt framboð undir forystu Lilju Mósesdóttur og
  • Hægri-grænir (undir forystu Guðmundar Franklíns Jónssonar)

Í ljós kom að 52,3% þeirra sem tóku afstöðu sögðu að til greina kæmi að kjósa eitthvert þessara framboða við næstu alþingiskosningar byðu þau á annað borð fram lista.

Lítill munur reyndist á fjölda þeirra sem sögðu það koma til greina að kjósa einstök framboð að Hægri-grænum undanskildum

Um 23% þeirra, sem tóku afstöðu, sögðu það koma til greina að kjósa Bjarta
framtíð, nýtt framboð undir forystu Ólafs Ragnars Grímssonar eða nýtt framboð undir forystu Lilju Mósesdóttur. Um 5,6% þeirra, sem tóku afstöðu, sögðu það koma til greina að kjósa Hægri-græna.

MMR segir, að af þeim sem að öðrum kosti myndu kjósa Samfylkinguna nú hefðu
60% sagt að eitthvert af nýju framboðunum fjórum kæmi til greina. Munaði þar mest um að 47,5% stuðningsfólks Samfylkingarinnar sögðu að framboð Bjartrar framtíðar kæmi til greina.

Þá sögðust 49,2% framsóknarmanna telja að eitthvert framboðanna kæmi til greina og þá helst nýtt framboð undir forystu Ólafs Ragnars Grímssonar (37,9%).

Tilkynning MMR

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert