„Það að forseti þingisns skuli ekki hafa gert minnstu tilraun til að rífa þingið upp úr því siðferðilega foraði sem þetta fólk hefur komi því í er dapurlegt en lýsir kannski meir en nokkuð annað þeim einbeitta vilja að stjórnmálastéttin eigi að vera hafin fyrir ofan lög og rétt í landinu og ef þarf á að halda þá til fjandans með allt annað.“ Þetta segir Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, í niðurlagi pistils á bloggsíðu sinni þar sem hann rekur feril landsdómsmálins eins og það horfir við honum.
Þór rekur þar upphaf landsdómsmálsins allt frá því að Alþingi samþykkti lög nr. 14/2008 sem kváðu á um að skipuð yrði rannsóknarnefnd til að fara ofan í hrunið, Rannsóknarnefnd Alþingis (RNA). Þór vísar til breytingaalaga nr. 146/2009 sem kváðu á um setningu svokallaðrar þingmannanefndar er var síðar stofnuð. Hann rekur hvernig Hreyfingin hafi reynt að koma að ýmsum breytingatillögum en hann hafi sem fulltrúi Hreyfingarinnar efast um hæfi alþingismanna til að taka ákvörðun um ákæru.
„Atkvæðagreiðslan var svo skandall og svartasti dagurinn í sögu Alþingis þegar þingmenn og ráðherrar hrunstjórnarinnar greiddu allir atkvæði um að hlífa félögum sínum og kippa þeim í skjól undan réttvísinni. Allir sluppu nema Geir Haarde og þinginu lauk með skömm,“ segir Þór sem gagnrýnir harðlega hvernig umræðan hafi þróast í kjölfarið. Þór gagnrýnir einnig þingsályktunartillögu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, um að vísa máli á hendur Geir H. Haarde frá landsdómi sem og hegðun ýmissa stjórnaliða í Vinstri grænum og Samfylkingu.