Þótt enn sé þorri og sauðburður ekki á næsta leiti snérust orðaskylmingar þeirra Gunnars Braga Sveinssonar, þingflokksformanns Framsóknarflokksins, og Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, á Alþingi í dag um tvílembinga, hrútlömb og taglhnýtinga.
Þessi „landbúnaðarumræða" hófst þegar Gunnar Bragi vildi í fyrirspurnartíma á þinginu ræða nýlegt viðtal, sem Viðskiptablaðið birti við Össur. Spurði Gunnar Bragi hvort Össur teldi að formannsskipti í Samfylkingunni, sem bar á góma í viðtalinu, þyrftu að verða fyrr en síðar og hvort það stæði Samfylkingunni fyrir þrifum í pólitíkinni að hafa ekki skipt um forustu nú þegar og hvort Samfylkingin hefði misst af lestinni í pólitíkinni.
Össur sagðist ekki skulda þeim „tvílembingum“ sem hann sagði leiða Framsóknarflokkinn og Gunnar Bragi væri partur af, neinar skýringar á ummælum hans sem vörðuðu innanflokksmálefni Samfylkingarinnar fremur en þeir skulduðu honum skýringar á innri málefnum Framsóknarflokksins.
Össur sagðist í viðtalinu hafa lýst aðdáun sinni á því með hvaða hætti Jóhanna Sigurðardóttir hefði tekist á við gríðarlega erfið verkefni á síðustu árum og hún ætti að ljúka þeim verkum.
„En það er nefnilega staðreynd að tvílembingar Framsóknarflokksins ganga til kosningabaráttunnar með slitna brynju, sundrað sverð og syndagjöld. Þeim hefur tekist að kljúfa sinn flokk, hrekja frá honum einn af efnilegustu forustumönnunum. Þeir halda ekki einu sinni sjó frá kosningum og eina spurningin varðandi forustumál flokka er þessi: Verður skipt um forustu í Framsóknarflokknum fyrir eða eftir kosningar?"
Gunnar Bragi svaraði, ef Framsóknarflokkurinn kæmi fram eins og tvílembd ær þá vildi hann vita hvernig Samfylkingunni liði að vera taglhnýtingur afturhaldsins í þinginu.
Þá sagði Gunnar Bragi að Össur hefði ekki svarað því hvers vegna hann kysi að fara fram á ritvöllinn og tilkynna að forusta Samfylkingarinnar væri ónýt, að tími Jóhönnu Sigurðardóttur væri liðinn og skipta þyrfti um forustu. „Það skiptir máli fyrir pólitíkina í framtíðinni hver verður formaður Samfylkingarinnar,“ sagði Gunnar Bragi.
Össur sagðist hafa líkt forustumönnum Framsóknarflokkinn við tvílembinga af virðingu við landbúnaðinn. Ef Gunnar Bragi teldi það móðgun við sig að vera kallaður hrútlamb þá drægi hann þau ummæli sín til baka.
Hins vegar virtist það ekki ætla að verða hlutskipti Framsóknarflokksins að ganga marglembdur til næstu kosningar. Framsóknarflokkurinn hefði verið í kjörlendi í baráttu við ríkisstjórn, sem átt hefði í miklum vandræðum en væri fyrst núna að sigla í gegn. En það hefði engu skilað og flokkurinn væri í verri stöðu nú en í upphafi kjörtímabilsins. Framsóknarflokkurinn ætti að læra af Sjálfstæðisflokknum, sem væri þó sjálfstæður „en hann er eins og lítið lamb á eftir ánni þar sem hann labbar í humátt á eftir Sjálfstæðisflokknum,“ sagði Össur.