Vara við stormi

Frá ófærð er i Vestmannaeyjum. Mynd úr safni.
Frá ófærð er i Vestmannaeyjum. Mynd úr safni. Eyjafréttir/Júlíus G. Ingason

Veðurstofan varar við stormi, yfir 20 metrum á sekúndu, vestan- og norðvestanlands fram eftir morgni í dag. Einnig við suður- og suðausturströndina í fyrstu en þar er búist við 15-23 metrum á sekúndu og snjókomu.

Veðrið hefur haft áhrif á samgöngun en Flugfélag Íslands frestaði fyrstu ferðum sínum í morgun vegna veðurs. Brottför til Akureyrar er nú áætluð kl. 10 en athuga á með flug til Egilsstaða kl. 11.15 og Ísafjarðar kl. 12.15. Er fólk hvatt til að fylgjast með á heimasíðunni flugfelag.is

Flugfélagið Ernir frestaði brottför til Vestmannaeyja í morgun sem vera átti kl. 7.15 og er brottför nú kl. 9.

Björgunarsveitin í Hveragerði var á æfingu á Hellisheiði þegar veðrið skall á í gærkvöld og kom fólki þar til aðstoðar.

Skólaakstur fellur niður
Skólaakstur hefur víða fallið niður í dag vegna veðurs. Stórhríð er víða á Snæfellsnesi. Þar fellur  norðan Fróðárheiðar og einnig fellur akstur skólabifreiða milli Hellissands og Ólafsvíkur af sökum óveðurs á leiðinni. Við slíkar aðstæður eru skólarnir opnir á báðum stöðum og starfsfólk vinnur samkvæmt viðbragðsáætlun sem er að finna á heimasíðu skólans, www.gsnb.is

 Kennsla fellur niður í Lýsuhólsskóla og akstur skólabifreiða í Breiðuvík og Staðarsveit niður vegna óveðurs. Stefnt er að því að hefja akstur gangi veðrið niður og bendir skólastjóri  forráðamönnum á að fylgjast reglulega með heimasíðu skólans í dag.

Skólaakstur fellur niður í Grunnskóla Húnaþings vestra Hvammstanga og Laugarbakka en á vefsíðu skólans segir að hann verði opinn í dag.

Rafmagnstruflanir vegna veðurs
Tilkynnt hefur verið um rafmagnstruflanir vegna veðurs á Vesturlandi. Rafmagn fór af Borgarfirði og Snæfellsnesi þegar spennir leysti út í aðveitustöð við Vatnshamra kl. 7.05 en komst fljótlega aftur allt svæðið.
Rétt fyrir klukkan átta í morgun  leysti Reykholtsdalslína út og var rafmagni fljótlega komið að Deildartungu. Hefur vinnuflokkur í Borgarnesi verið kallaðu út til viðgerðar.

Beðið með mokstur vegna veðurs

Stórhríð er á sunnanverðum Vestfjörðum og ekki ferðaveður. Verið er að moka Gemlufallsheiði en beðið er með mokstur í Ísafjarðardjúpi, á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Slæmt veður er á Vesturlandi, snjókoma í Borgarfirði en stórhríð víða á Snæfellsnesi og sumstaðar í Dölunum og beðið með mokstur.

Hálka er á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum. Á Suðurlandi er einnig víðast hálka, snjór eða jafnvel þæfingur og flughált er austan Hvolsvallar.

Á Norðurlandi er víðast hvar hálka eða snjór og þæfingsfærð er fyrir Vatnsnes.

Á Austurlandi er hálka eða snjór er á flestum vegum. Á Suðausturlandi er sumstaðar snjókoma. Þæfingsfærð er vestan Kirkjubæjarklausturs og flughált á Mýrdalssandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka