Vilja stofna auðlindasjóð

Nefnd um stefnu­mörk­un rík­is­ins í auðlinda­mál­um sem for­sæt­is­ráðherra skipaði í júlí 2011 legg­ur til að stofnaður verði auðlinda­sjóður. Mik­il­vægt sé að svo­kölluð auðlindar­enta og ráðstöf­un henn­ar í þágu sam­fé­lags­ins verði sýni­leg.

Nefnd­in hef­ur skilað af sér minn­is­blaði um stöðu verk­efn­is­ins. Þar er farið yfir for­send­ur í er­ind­is­bréfi, skil­grein­ingu helstu hug­taka, af­mörk­un þeirra auðlinda sem falla und­ir verksvið nefnd­ar­inn­ar, mik­il­vægi sjálf­bærr­ar þró­un­ar, mark­mið heild­stæðrar auðlinda­stefnu, auðlinda­sjóð, um­sýslu með auðlind­um og sett fram áætl­un um vinnu nefnd­ar­inn­ar á næstu mánuðum.

Varðandi það mark­mið með starfi nefnd­ar­inn­ar að tryggja að þjóðin njóti arðs af sjálf­bærri nýt­ingu auðlinda sinna seg­ir að mik­il­vægt sé að svo­kölluð auðlindar­enta og ráðstöf­un henn­ar í þágu sam­fé­lags­ins verði sýni­leg. Stofn­un auðlinda­sjóðs sé mik­il­væg í þessu sam­bandi.

Til skemmri tíma sé ekki áformað að auðlinda­sjóður lúti sjálf­stæðri stjórn hvað ráðstöf­un tekna varðar. Frem­ur verði um það að ræða að draga skýrt fram í rík­is­bók­hald­inu hvaða tekj­ur rík­is­ins stafi af auðlind­um og hvert þær renni. Um eig­in­lega sjóðssöfn­un geti hins veg­ar verið að ræða þegar tekj­ur stafa af auðlind­um sem aug­ljós­lega eru ekki end­ur­nýj­an­leg­ar. Þannig yrði búið í hag­inn fyr­ir kom­andi kyn­slóðir sem ekki nytu góðs af sömu auðlind­um.

Í nefnd­inni eiga nú sæti Arn­ar Guðmunds­son formaður, skipaður af for­sæt­is­ráðherra án til­nefn­ing­ar, Svan­fríður Jón­as­dótt­ir, til­nefnd af fjár­málaráðherra, Gunn­ar Tryggva­son, til­efnd­ur af iðnaðarráðherra, Ragn­ar Arn­alds, til­nefnd­ur af inn­an­rík­is­ráðherra, Indriði H. Þor­láks­son, til­nefnd­ur af sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, og Álf­heiður Inga­dótt­ir, til­nefnd af um­hverf­is­ráðherra. Gert er ráð fyr­ir að nefnd­in ljúki störf­um eigi síðar en 1. júní 2012.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka