47 sm snjódýpt í Garðabæ

mbl.is

Snjódýpt í Garðabæ mældist að jafnaði um 47 sentímetrar, samkvæmt mælingum Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings. Á Veðurstofunni mældust í morgun 27 sm en síðan hefur snjóað töluvert, og því spurning hvort einhver met muni falla í næstu mælingu í fyrramálið.

Einar segir frá þessu á bloggsíðu sinni. Fór hann í leiðangur í Garðabænum í kvöld, áður en tók að hreyfa vind.

„Ætlunin var að mæla snjódýpt og var ég vopnaður kústskafti og tommustokki. Tók nokkrar prufur á flatlendi þar sem snjórinn var óhreyfður með öllu. Fönnin er ótrúlega mikið jafnfallin þessa síðustu tvo sólarhringa. Mælingarnar voru allar á bilinu 45 til 51 sm og flestar við 47 sm. Það er sem sagt sú snjódýpt sem ég ætla að hér hafi verið í minni götu kl. 21 þann 25. janúar,“ ritar Einar og minnir á mælingu Veðurstofunnar í Reykjavík í morgun, 27 sm snjódýpt. Eftir það hefur snjónum kyngt niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert