90% fundarmanna ósátt

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, við atkvæðagreiðsluna um …
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, við atkvæðagreiðsluna um frávísunartillöguna. mbl.is/Golli

Fjölmennur fundur um þingsályktunartillögu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, um afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, var haldinn á vegum Samfylkingarfélagsins í Reykjavík í húsi Samfylkingarinnar við Hallveigarstíg í kvöld.

Að sögn Kjartans Valgarðssonar, formanns Samfylkingarfélagsins í Reykjavík, voru langflestir fundarmenn, eða um 90%, ósáttir við niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar um frávísunartillöguna sem lögð var fram gegn tillögu Bjarna. „Næstum því allir fundarmenn voru ósáttir við að þingmenn Samfylkingarinnar skyldu ekki greiða frávísunartillögunni atkvæði sitt,“ sagði Kjartan í samtali við blaðamann mbl.is. „Mín persónulega skoðun er sú að mér finnst það mikið heilbrigðisvottorð fyrir flokkinn að siðferðisgrundvöllur og réttlæti skipti fólk meira máli en salt í grautinn,“ segir Kjartan aðspurður út í sína skoðun á málinu.

Tveir þingmenn Samfylkingarinnar, þau Skúli Helgason og Valgerður Bjarnadóttir, voru viðstaddir fundinn. „Meirihluti þeirra sem tjáðu sig hafði orðið fyrir vonbrigðum með atkvæðagreiðsluna,“ sagði Valgerður aðspurð út í afstöðu fundarmanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert