Á byrjunarreit á hverjum degi

„Við erum búnir að vera á byrjunarreit síðan í desember,“ segir Guðni Hannesson, yfirmaður gatnahreinsunar hjá Reykjavíkurborg. Í þau 23 ár sem hann hefur starfað við gatnahreinsun segist hann aldrei hafa lent í öðru eins fannfergi yfir jafn langt tímabil og að erfiðast sé að eiga við klakann. Helst þyrfti að moka tvisvar á dag á dögum eins og þessum.   

Snjó hefur kyngt niður  í Reykjavík og í dag hafa um 80 starfsmenn Reykjavíkurborgar og verktakar á hennar vegum unnið  við snjóhreinsun og hálkuvarnir og hafa þeir haft yfir 50 tæki til afnota. Þessi fjöldi telur þó ekki með mannskap hjá Vegagerðinni sem er með vakt allan sólarhringinn á stofnbrautum.

Unnið verður fram eftir kvöldi og í samræmi við viðbragðáætlanir Reykjavíkurborgar verður svo farið af stað klukkan fjögur í nótt á helstu umferðaræðar og gönguleiðir, einkum þær sem liggja að biðstöðvum strætó. Einnig verður snjó rutt af bílastæðum og gönguleiðum við skóla, leikskóla, sundlaugar og aðrar stofnanir borgarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert