Einum bjargað við Noreg

Þyrla af gerðinni Sea King. Tvær slíkar þyrlur leita nú …
Þyrla af gerðinni Sea King. Tvær slíkar þyrlur leita nú á svæðinu.

Búið er að bjarga einum manni úr áhöfn íslensks togara við strendur Noregs. Fjórir voru um borð í skipinu og er hinna þriggja leitað. Norskir fjölmiðlar segja, að báturinn virðist hafa sokkið en verið var að sigla honum frá Íslandi til Noregs. Verið var að ferja skipið til Álasunds til að setja í brotajárn.

Norska ríkisútvarpið segir, að maðurinn, sem var bjargað, hafi verið í sérstökum björgunarflotbúningi. Ekki sé vitað hvort hinir þrír séu í samskonar búningum.  

Norska blaðið VG hefur eftir Einari Knudsen í stjórnstöð björgunarmiðstöðvar Suður-Noregs, að fundist hafi brak á svæðinu og því sé líklegt að togarinn hafi sokkið um 150 sjómílur norðvestur af Álasundi. Neyðarkall barst frá neyðarsendi í skipinu klukkan 13:14 að íslenskum tíma og voru skip og flugvélar send á staðinn. Björgunarmiðstöðin náði ekki sambandi við togarann.

Mjög slæmt veður er á þessu svæði, stormur og er ölduhæð 10-15 metrar.   

Tvær björgunarþyrlur af gerðinni Sea King eru við leit á svæðinu. Loðnuskip, sem var að veiðum í nágrenninu, er einnig á leiðinni og Orion-eftirlitsflugvél frá Andøya. Espen Lien, í stjórnstöð norska sjóhersins í Bodø, segir að þyrlurnar þurfi að fara til olíuborpalla í nágrenninu til að taka eldsneyti en Orion-vélin geti verið á svæðinu til miðnættis. Vélin henti vel til leitar í sjó en hún sé búin bæði ratsjá og hitamyndavélum.

Ekki hefur verið upplýst um nafnið á íslenska togaranum en verið var að flytja skipið til Noregs þangað sem það hafði verið selt í brotajárn.

mbl.is/Elín Esther
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert