Fleiri fara í hvalaskoðun í vetur

Meðal þeirra dýra sem sést hefur til undanfarna daga eru …
Meðal þeirra dýra sem sést hefur til undanfarna daga eru hnúfubakar, háhyrningar, höfrungar og hnísur. Ljósmynd/Megan Whittaker

Ásókn í hvalaskoðun yfir vetrartímann verður sífellt meiri og hefur orðið mikil aukning í fyrirspurnum og bókunum, segir María Björk Gunnarsdóttir, markaðsstjóri ferðaþjónustufyrirtækisins Eldingar.

„Það hefur gengið mjög vel núna í vetur og við höfum verið að sjá mikla aukningu hjá okkur,“ segir María en Elding gerir út tvo stóra hvalaskoðunarbáta á Reykjavíkursvæðinu og einn minni.

„Yfir vetrartímann eru þetta á milli 40-50 manns sem koma í hvalaskoðun á dag en á góðum dögum fer fjöldinn í 100. Svo eru enn fleiri á sumrin,“ segir María.

María segir samt varla hægt að bera saman veturinn nú og þann á undan en þá gerði veðrið hvalaskoðendum lífið leitt. Frá hausti hafi það hins vegar verið með besta móti og siglt á hverjum degi nema jóladag og nýársdag.

María segist sér virðast sem ferðamenn séu meira einir á ferð á veturna en komi í hópum á sumrin. Flestir séu þeir frá Evrópu; margir frá Þýskalandi, Bretlandi og Skandinavíu. Þá komi einnig margir frá Bandaríkjunum.

Hún segir átakið Ísland-Allt árið, sem hrint var af stað í haust, fara vel af stað. Hin rómuðu heimboð hafi tvímælalaust vakið mikla athygli og þá hafi átakið Inspired by Iceland vafalítið skilað sínu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert