Snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands hefur lýst yfir óvissuástandi á norðanverðum Vestfjörðum og á Mið-Norðurlandi. Formlegur viðbúnaður er nú á fyrsta stigi. Sýslumönnum, almannaverndarnefndum og lögreglu á svæðunum hefur verið gert viðvart.
Fyrsta stigi formlegs viðbúnaðarstigs hjá Veðurstofu Íslands hefur því verið lýst yfir, segir Auður Kjartansdóttir hjá snjóflóðavaktinni. Næsta stig fyrir ofan er rýming húsa. Aðspurð segir hún að ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um það á þessu stigi að rýma hús en fylgst sé mjög grannt með.
Í Súðavík hefur byggð verið færð frá mestu upptakasvæðunum. Í Bolungarvík er búið að byggja snjóflóðavarnargarð að hluta til. Búið er að kveikja á viðvörunarljósum vegna snjóflóðahættu við hesthúsahverfin á Ólafsfirði og í Bolungarvík. Auður segir einnig verið að loka gönguleiðum á Siglufirði sem eru við snjóflóðavarnagarða þar.
Súðavíkurhlíð lokað vegna snjóflóðahættu