Norska strandgæslan hefur vegna veðurs hætt leit að mönnunum þremur sem saknað var af togaranum Hallgrími SI-77. Eru mennirnir taldir af, en björgunarbátur fannst mannlaus á þeim slóðum sem talið er að togarinn hafi farist.
Jan Lillebø, talsmaður björgunarmiðstöðvarinnar í Suður-Noregi, segir við vef VG, að aðstæður á svæðinu séu það slæmar að ekki sé lengur gert ráð fyrir að mennirnir finnist á lífi. Tvær björgunarþyrlur og eftirlitsflugvél tóku þátt í leitinni í kvöld ásamt loðnuskipi.
Verið var að flytja togarann til Noregs þegar hann sökk í dag en skipið hafði verið selt í brotajárn. Neyðarkall barst frá neyðarsendi í skipinu klukkan 13:14 í dag þegar skipið var statt um 150 sjómílur norðvestur af Álasundi inni í norskri lögsögu. Síðan náðist ekkert samband við skipið.
Fjórir voru í áhöfninni og var einum bjargað úr sjónum um borð í þyrlu síðdegis. Maðurinn var íklæddur flotgalla. Hann var fluttur til Álasunds með þyrlunni, sem lenti þar um klukkan 20 að íslenskum tíma. Var manninum ekið á sjúkrahús þar sem hann er í rannsókn. Var líðan hans sögð góð miðað við aðstæður.