Hlutafélag um smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju er nú í skoðun, mögulegir eignaraðilar yrðu ríkið, Vestmannaeyjabær og lífeyrissjóðir. Ákveðið hefur verið að hefja könnunarviðræður um þetta fyrirkomulag enda hafa allir þessir aðilar lýst áhuga sínum á að kanna þessa leið frekar. Gert er ráð fyrir að ný ferja hefji siglingar í síðasta lagi árið 2015. Kom þetta fram á blaðamannafundi sem var haldinn í innanríkisráðuneytinu í morgun.
Þar var staðan á smíði nýrrar ferju og aðlögun Landeyjahafnar rædd. Samningur við Eimskipafélagið sem rekur Herjólf rennur út í 1. maí og verðu reksturinn boðinn út að nýju. Mun nýr samningur gilda frá 1. maí 2012 þar til ný ferja hefur verið smíðuð og verður tilbúin til að taka við af núverandi ferju.
Vegagerðin bauð síðast út rekstur siglinga Herjólfs milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar árið 2005. Samið var við Eimskip hf. sem hefur síðan 1. janúar 2006 sinnt þessu verkefni.
Upphaflegir samningar hafa verið framlengdir síðustu ár meðan safnað hefur verið reynslu við siglingar til Landeyjahafnar og núverandi samningur rennur út 1. maí næstkomandi. Vegagerðin hefur nú ákveðið að bjóða þennan rekstur út að nýju og mun nýr samningur gilda frá 1. maí 2012 þar til ný ferja hefur verið smíðuð og verður tilbúin til að taka við af núverandi ferju.