Andrea J. Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, segir að höfundar greinargerðar Hagfræðistofnunar HÍ um kostnað við niðurfærslu lána, hafi ekki haft aðgang að raunverulegum gögnum bankanna og því ríki áfram full óvissa um það hve mikill kostnaður þeirra sé af skuldaniðurfellingu.
„Þeir vinna bara með tölur frá Seðlabankanum og Samtökum fjármálafyrirtækja,“ segir Andrea. „Hvernig gat samanlagður hagnaður bankanna frá hruni orðið yfir 170 milljarðar? Þetta er ekki skýrt í skýrslunni en það var það sem við vildum fá fram, hvaða talnaleikfimi væri á ferðinni. Þetta eyðir ekki óvissunni, en það sagði forsætisráðherra að væri markmiðið.“
Andrea segir það skilning samtakanna að stjórnvöld geti nálgast umrædd gögn. Lög um bankaleynd nái aðeins yfir persónuleg gögn.
Niðurstaða Hagfræðistofnunar er að líklegast sé að kostnaður af almennum skuldaniðurfellingum myndi lenda að langmestu leyti á ríkinu. Kostnaður bankanna af 110%-leiðinni og skuldaniðurfellingu af öðrum sökum sé þegar orðinn meiri en nemur afslætti þeirra af lánasöfnunum haustið 2008.