Snjódýpt í Reykjavík í dag mældist 27 cm þegar mælingar voru gerðar klukkan 9:00 í morgun. Er þetta 8 cm aukning frá því í gær en þá mældist snjódýpt í höfuðborginni 19 cm. Til samanburðar má nefna að í desember á síðasta ári mældist snjódýpt í Reykjavík 33 cm en þá hafði aldrei áður mælst jafndjúpur snjór í Reykjavík í desember. Þær upplýsingar fengust frá Veðurstofunni að líklegt væri að snjódýptin væri heldur meiri núna en í morgun sökum snjókomunnar í dag.
Snjódýptin var þó aðeins meiri á Akureyri í morgun en þar mældist hún 42 cm. Upplýsingar um snjódýpt út um land allt má nálgast á vef Veðurstofunnar.