Þung orð féllu á rabbfundi Reykjavíkurfélags Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um stöðu flokksins í ljósi deilnanna um landsdómsmálið gegn Geir H. Haarde í gærkvöldi en þar sátu fyrir svörum Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Björn Valur Gíslason, formaður þingflokksins.
Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi iðnaðarráðherra, sagði að eðlisbreyting hefði orðið á ákærum á hendur ráðherrum þegar þrír sluppu. Forystumenn ríkisstjórnarinnar hefðu gert reginmistök þegar þeir reyndu að koma í veg fyrir að tillaga um að falla frá kæru fengi umfjöllun á þingi, að sjálfsögðu þyrfti hún að fá málefnalega meðferð og sama gilti um röksemdir Ögmundar fyrir sinnaskiptum sínum. Nú gæfi Steingrímur J. Sigfússon í skyn að Ögmundur yrði látinn víkja úr ráðherrastóli og Jóhanna Sigurðardóttir að forseti þingsins færi sömu leið. „Hvar er þetta fólk statt?“ spurði Hjörleifur.
Í umfjöllun um fundinn í Morgunblaðinu í dag segir, að margir fundarmenn gagnrýndu Ögmund hart og sögðu hann taka þátt í að hindra rannsókn á hruninu með því að vilja falla frá ákæru. Aðrir hörmuðu fyrst og fremst að deilan hefði klofið flokkinn. Sumir notuðu tækifærið til að viðra þá skoðun að VG hefði hreinlega mistekist að takast á við hrunið og afleiðingar þess.