Greinargerð Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um kostnað við niðurfærslu lána, var gagnrýnd þegar þingmenn ræddu störf þingsins á Alþingi í dag.
Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði m.a. að skýrslan væri uppfull af misvísandi tölum. Engin ný gögn væru þar skoðuð og engin sjálfstæð og óháð rannsókn hefði farið fram. Sagði hún að skýrslan væri rusl og ætti bara að fara í ruslið.
Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að orðfærið sem þingmenn notuðu um skýrsluna væri gassalegt, svo ekki væri meira sagt.
Lilja Mósesdóttir, óháður þingmaður, sagði nauðsynlegt að leiðrétta öll fasteignalán, ef Íslendingar ætluðu að komast út úr skuldakreppu, sem væri sambærileg við þá sem Japan hafi þurft að glíma við á síðustu árum.
„Andstaðan við almenna leiðréttingu lána er blekkingarleikur," sagði Lilja. Tryggja þurfi að allur afsláttur af yfirfærslu lánasafna milli gömlu og nýju bankanna fari til heimilanna.
Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að halda eigi áfram að ræða stöðu heimilanna, horfa á þá sem verst eru staddir og reyna að leysa úr þeirra málum. Þá sagði hann að eina leiðin til að losna við verðtryggingu væri að taka upp aðra mynt.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, velti því fyrir sér hvort ekki væri hægt að nýta eitthvað af hagnaði bankanna frá hruni til að færa niður lán almennings.